Fótbolti

Vanur því að spila um titla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Club Brugge.
Eiður Smári í leik með Club Brugge. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen átti frábæra innkomu þegar að Club Brugge vann mikilvægan sigur á Standard Liege á útivelli í belgísku úrvalsdeildinni um helgina.

Club Brugge er í öðru sæti með 43 stig, rétt eins og Zulte Waregem. Anderlecht er á toppnum með 45 stig en tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.

Club vann leikinn, 4-2, og Eiður Smári lagði upp mark aðeins mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður.

„Við erum búnir að leggja mikið á okkur í vetur til að vera í þessari stöðu. Ég er vanur því á mínum ferli að spila um titla og ég spila alltaf til sigurs. Þess vegna er ég hjá þessu félagi í dag,“ sagði Eiður Smári við belgíska fjölmiðla.

„Ég vil auðvitað alltaf spila sem mest. Kannski hefðum við unnið 6-0 ef ég hefði spilað frá upphafi, en maður veit aldrei. Þetta snýst um að gefa allt sitt þær mínútur sem maður spilar. Það var gaman að leggja upp mark en Vazquez kláraði færið mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×