Fótbolti

Van Bommel hættur | Fékk rautt í lokaleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hollenski miðvallarleikmaðurinn Mark van Bommel tilkynnti um helgina að hann væri hættur eftir 21 ár í atvinnumennsku í fótbolta.

Van Bommel lauk ferlinum hjá PSG í heimalandi og spilaði í 3-1 tapi liðsins gegn Twente um helgina. Hann var ávallt harður í horn að taka og því ef til vill viðeigandi að hann hafi fengið rautt í lokaleik sínum á ferlinum.

„Þetta hefur verið góður tími en ég vil ekki lengur standa í vegi fyrir ungum og efnilegum leikmönnum,“ sagði Van Bommel eftir leikinn um helgina.

„Ég hef líka átt í vandræðum með vinstra hnéð síðan á síðasta ári. Það er samt mjög erfitt að hætta núna, sérstaklega miðað við viðbrögð stuðningsmannanna. En ég ákvað að fylgja sannfæringunni.“

Van Bommel hóf ferilinn hjá Fortuna Sittard árið 1992 og fór þaðan til PSV. Hann hefur spilað með Barcelona, Bayern München og AC Milan sem og hollenska landsliðinu á gæfuríkum ferli. Alls vann hann 22 titla á þeim tíma.

„Ég er stoltur af því, sem og að hafa komist í úrslitaleik HM með landsliðinu árið 2010.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×