Fótbolti

Einkahúmor og NFL-taktar | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Laxdal skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna gegn Víkingi Ólafsvík í fyrradag og fagnaði þeim vel og innilega.

Jóhann var í aðalhlutverki þegar að Stjörnumenn öðluðust heimsfrægð fyrir „fögnin“ sín á sínum tíma og rifjaði upp gamla takta í gær, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

„Það var smá einkahúmor í fyrra fagninu,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi og lýsti fagninu sem manni sem ætti erfitt með að hemja sig við lyklaborðið.

„Í stað þess að vera hóflega fyndinn setur hann inn milljón „haha“,“ sagði Jóhann. „Þetta er eitthvað sem við strákarnir í lðinu höfum hlegið að.“

Stuðningsmannasveit Stjörnunnar, Silfurskeiðin, komst í fréttirnar í síðustu viku fyrir framkomu sína gagnvart Bjarna Guðjónssyni, leikmanni KR. Jóhann neitar því að hann hafi verið að leika fréttamann við lyklaborðið.

„Alls ekki. Það er eins fjarri lagi og hægt er,“ sagði hann í léttum dúr.

Hann fagnaði seinna markinu með því að heiðra NFL-leikmanninn Ray Lewis sem lagði nýverið skóna á hilluna eftir sautján ára feril. Hann lék alla tíð með Baltimore Ravens og varð tvívegis meistari með liðinu, nú síðast í vetur.

„Ég var búinn að láta vita á Facebook að þetta stæði til. Ég ætlaði reyndar að taka þetta þegar við myndum ganga illa völlinn í fyrstu umferðinni en það varð ekkert af því,“ sagði Jóhann en Lewis tók dansinn fyrir hvern leik.

„Mér fannst því bara viðeigandi að taka þetta núna og gera eitthvað skemmtilegt fyrir kallinn.“

Jóhann segist þó ekki sakna skipulögðu „fagnanna“ hjá Stjörnumönnum. „Þetta er bara eitthvað sem kemur. Ég var með þetta tvennt planað og nú þarf ég að finna upp á einhverju skemmtilegu fyrir næsta mark mitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×