Fótbolti

Kolbeinn skoraði er Ajax tryggði sér titilinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði fyrsta mark Ajax sem tryggði sér hollenska meistaratitilinn í fótbolta með því að leggja botnið Willem II 5-0 í næst síðustu umferð deildarinnar í dag. Aron Jóhannsson var einnig á markaskónum fyrir lið sitt AZ.

Ajax var með fjögurra stiga forystu á PSV og Feyenoord þega tvær umferðir voru eftir og gátu því tryggt sér titilinn með sigri á botnliðinu á heimavelli.

Leikmenn Ajax sýndu að taugarnar voru ekkert að þvælast fyrir þeim með því að gera út um leikinn snemma leiks.

Kolbeinn skoraði strax á 12. mínútu eftir sendingu Ryan Babel og 13 mínútum síðar bætti Christian Eriksen öðru marki við. Markið hjá Kolbeini má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Viktor Fischer skoraði þriðja markið á 68. mínútu og Siem de Jong kom Ajax í 4-0 á 82. mínútu eftir sendingu Eriksen. Eriksen lagði upp annað mark einni mínútu fyrir leikslok þegar Danny Hoesen gulltryggði sigurinn og titilinn endanlega.

Feyenoord tapaði sínum leik gegn ADO Den Haag 2-0 en PSV gerði sitt með því að sigra Guðlaug Victor Pálsson og félaga í NEC 4-2 á heimavelli. Guðlaugur lék að vanda allan leikinn fyrir NEC.

AZ lyfti sér upp um tvö sæti, í það tíunda, með stórsigri á PEC Zwolle 4-0 á heimavelli. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði AZ og lék í 72 mínútur. Aron Jóhannsson kom inn á sem varamaður á 60. mínútu og kom AZ í 3-0 tveimur mínutum síðar.

Alfreð Finnbogason lék allan leikinn fyrir Heerenveen sem tapaði heima 4-2 fyrir Utrecht. Alfreð lagði upp bæði mörk Heerenveen í leiknum.

Heerenveen féll með ósigrinum niður í áttunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×