Fótbolti

Misjafnt gengi Íslendinganna í Noregi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson í leik með ÍBV í fyrra sumar.
Guðmundur Þórarinsson í leik með ÍBV í fyrra sumar. MYND/VILHELM
Sarpsborg 08 var eina Íslendingaliðið sem vann sigur í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þegar fimm leikir voru leiknir. Íslenskir leikmenn komu við sögu í öllum leikjunum fimm.

Pálmi Rafn Pálmason lék allan leikinn fyrir Lilleström sem beið 2-1 ósigur á útivelli gegn Odd. Lilleström er í sjötta sæti deildarinnar en Odd lyfti sér af fallsætinu.

Indriði Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Viking og Jón Daði Böðvarsson lék síðasta stundarfjórðunginn þegar lið þeirra tapaði 3-1 fyrir toppliði Strömsgodset á útivelli. Viking er í þriðja sæti deildinnar og hefði komist á toppinn með sigri.

Guðmundur Þórarinsson og Ásgeir Börkur Ásgeirsson voru í sigurliði Sarpsborg 08 sem lagði Haugesund 1-0 á útivelli. Ásgeir Börkur fékk að líta gula spjaldið á 64. mínútu. Bæði lið eru um miðja deild.

Kristján Örn Sigurðsson var að vanda í byrjunarliði Hönefoss sem gerði 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Tromsö. Arnór Sveinn Aðalsteinsson sat allan tímann á bekknum. Hönefoss féll niður í næst neðsta sæti deildarinnar en Tromsö er um miðja deild.

Birkir Már Sævarsson lék allan leikinn fyrir Brann sem tapaði 3-1 fyrir Sogndal á útivelli. Brann missti þar af tækifæri til að lyfta sér upp í annað sæti deildarinnar en Sogndal lyfti sér upp úr fallsæti með sigrinum en skammt er liðið af mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×