Enski boltinn

Fulham vann góðan sigur á QPR

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Fulham vann fínan sigur, 3-2,  á QPR í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en Dimitar Berbatov átti fínan leik fyrir heimamenn og skoraði tvö mörk.

Dimitar Berbatov skoraði fyrsta mark leiksins á áttundu mínútu úr vítaspyrnu og var hann aftur á ferðinni á 22. mínútu leiksins þegar hann setti boltann í netið.

Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiksins lenti Clint Hill, leikmaður QPR, í því að setja boltann í eigið net og staðan orðin 3-0. Adel Taarabt náði að minnka muninn í 3-1 rétt fyrir lok hálfleiksins og þannig var staðan í hálfleik. Loïc Rémy, leikmaður QPR, misnotaði vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiksins en bætti fyrir það tveim mínútum síðar þegar hann skoraði annað mark gestanna og mikil spenna komin í leikinn.

Á 78. mínútu leiksins fékk Steve Sidwell, leikmaður Fulham, rautt spjald fyrir heldur grófa tæklingu og því voru QPR einum leikmanni fleiri út leikinntímann. Leikmenn QPR reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og heimamenn unnu góðan sigur. 

Fulham er í tíunda sæti deildarinnar með 39 stig en QPR er sem fyrr í því næstneðsta með 23 stig. Útlitið orðið virkilega slæmt fyrir Harry Redknapp og félaga í QPR og þeir þurfa nánast kraftaverk til að halda sér í deildinni.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×