Enski boltinn

Samba kominn með upp í kok af launatali

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn QPR voru margir óánægðir með frammistöðu Chris Samba þegar að liðið tapaði fyrir Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær, 3-2.

Samba fékk dæmda á sig vítaspyrnu í upphafi leiks og gerði svo mistök stuttu síðar þegar að Fulham komst í 2-0. Dimitar Berbatov skoraði bæði mörkin.

Samba var keyptur til QPR í janúar frá rússneska félaginu Anzhi og er sagður vera á himinháum launum hjá félaginu - 100 þúsund pundum á viku eða tæpum nítján milljónum króna.

„Ég er kominn með nóg af tístum um peninga. Jafnið ykkur á þessu," skrifaði Samba á Twitter-síðu sína eftir tapið í gær. „Segið mér hvað er viðeigandi frammistaða fyrir 100 þúsund pund?"

„Ég er mjög leiður yfir því að hafa brugðist liði mínu, sérstaklega með frammistöðu minni í fyrri hálfleik."

Harry Redknapp var ómyrkur í máli eftir leik. „Við gáfum þeim þessi mörk. Þetta er það hræðilegasta sem ég hef séð á mínum ferli," sagði hann.

QPR og Reading eru í botnsætum ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig og eru nú átta stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×