Innlent

Klífur fjöll fyrir krabbameinssjúk börn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur verður á faraldsfæti.
Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur verður á faraldsfæti.
Þorsteinn Jakobsson, fjallagarpur með meiru, hefur undanfarið unnið að tindaverkefni sem felst í því að klífa bæjarfjöll á Íslandi. Þorsteinn hefur ákveðið að ljúka verkefninu í samstarfi við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á næstu 12 mánuðum og láta áheit í tengslum við göngurnar renna til SKB. Samstarfsverkefnið hefur hlotið nafnið Saman klífum brattann en baráttu krabbameinsveikra barna má oft og tíðum líkja við fjallgöngu sem stundum er erfið vegna bratta og klungurs en svo koma tímar og svæði inn á milli sem ekki eru jafnerfið yfirferðar.

Samstarfið hefst formlega með göngu á bæjarfjall Hafnfirðinga, Helgafellið, klukkan tíu á laugardaginn. Gangan tekur um tvær klukkustundir og er öllum heimil þátttaka án greiðslu þátttökugjalds en þátttakendum sem og öðrum bent á að hægt er að styðja verkefnið með frjálsum framlögum inn á reikning SKB. Upplýsingar um hann og fleira sem tengist göngunni eru á heimasíðu SKB, www.skb.is. Næstu tvær göngur verða síðan laugardaginn 13. apríl á Akrafjall við Akranes klukkan tíu og 20. apríl á Keili við Voga klukkan tíu.

Meðfram þessum göngum er Þorsteinn að vinna að bók um fjöll og fjallgöngur sem kemur út á næsta ári og renna höfundarlaun hans til SKB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×