Enski boltinn

Liverpool lenti undir en vann samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Liverpool er þremur stigum á eftir nágrönnum sínum í Everton eftir 2-1 endurkomusigur á Aston Villa í Villa Park í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en fyrir vikið sitja Aston Villa menn áfram í fallsæti.

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu eftir klukkutíma leiks. Þetta var fjórði sigur Liverpool í síðustu fimm deildarleikjum en Aston Villa átti þarna möguleika á að vinna sinn þriðja leik í röð.

Christian Benteke kom Aston Villa yfir á 31. mínútu eftir að hann skapp í gegn um vörn Liverpool eftir langa sendingu Ashley Westwood sem hafði viðkomu í Gabriel Agbonlahor. Benteke hefur þar með skorað þrjú mörk á móti Liverpool á tímabilinu.

Jordan Henderson jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks eftir laglega sókn og sendingu frá Brasilíumanninum Philippe Coutinho.

Luis Suarez fiskaði síðan vítaspyrnu á 60. mínútu sem Steven Gerrard nýtti af öryggi. Gerrard var síðan líka hetjan hinum megin á vellinum þegar hann bjargaði á marklínu eftir skalla Christian Benteke.

Christian Benteke skoraði mark í uppbótartíma en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×