Enski boltinn

Van Persie: Ekki búast við frábærum leik á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie, framherji Manchester United, hefur varað knattspyrnuáhugafólk við því að búast við frábærum fótboltaleik þegar United og Chelsea mætast í hádeginu á morgun á Stamford Bridge í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Bæði lið voru að spila í ensku úrvalsdeildinni í gær og fá minna en 48 tíma hvíld á milli leikja. United vann þá 1-0 sigur á Sunderland en Chelsea tapaði 1-2 fyrir Southampton.

„Það er bara alltof lítill tími á milli leikjanna. Fólk verður því að átta sig á því að að þetta verður ekki frábær fótboltaleikur því það er bara ekki hægt," sagði Robin van Persie við BBC.

„Vanalega eru vöðvarnir sárir og þreyttir á degi tvö og nú þurfum við að fara að spila leik þegar skrokkurinn er ekki búinn að ná sér. Þetta er mikil synd en við getum ekkert gert neitt við þessu því það eru Meistaradeildarleikir í vikunni og Chelsea er síðan að spila í Evrópudeildinni á fimmtudaginn," sagði Van Persie.

Robin van Persie spilaði allan leikinn á móti Sunderland en lykilmenn eins og Patrice Evra, Rio Ferdinand, Wayne Rooney, Ryan Giggs voru allir hvíldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×