Fótbolti

Þjálfari Slóvena fyrrum liðsfélagi Ásgeirs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Srecko Katanec.
Srecko Katanec.
Srecko Katanec er nýtekinn við landsliðsþjálfarastarfi Slóvena á ný en hann var við stjórnvölinn þegar að landsliðið vann sína fræknustu sigra í stuttri sögu þjóðarinnar.

Katanec var við stjórnvölinn þegar að Slóvenía tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM 2000 og HM 2002. Eftir upplausn Júgóslavíu árið 1991 náði slóvenska landsliðið að byggja upp sterkt lið á ótrúlega skömmum tíma en talað er um landslið þessa ára sem gullnu kynslóð slóvenskrar knattspyrnu. Fyrir henni fóru þjálfarinn Katanec og miðjumaðurinn Zlatko Zahovic.

Katanec hætti eftir HM 2002 en Slóvenar töpuðu öllum leikjum sínum þar. Hávaðarifrildi við Zahovic setti einnig stórt strik í reikninginn.

Katanec var sjálfur öflugur leikmaður og fastamaður í gamla júgóslavneska landsliðinu. Hann hóf ferilinn á Balkansskaganum en árið 1988 samdi hann við þýska liðið Stuttgart og lék við hlið Ásgeirs Sigurvinssonar, til að mynda í tveimur úrslitaleikjum UEFA-keppninnar gegn Napoli. Helsta stjarna þess liðs var vitanlega Diego Maradona.

Hann stoppaði þó bara í eitt ár í Þýskalandi en var næstu fimm árin með Sampdoria á Ítalíu. Katanec tók þátt í mögnuðum árangri liðsins en liðið varð á þeim árum Ítalíumeistari, ítalskur bikarmeistari og Evrópumeistari bikarhafa árið 1990 eftir sigur á Arnóri Guðjohnsen og félögum hans í Anderlecht í úrslitaleiknum. Katanec lék því með mörgum frábærum leikmönnum á sínum tíma og komst einnig í kynni við góða íslenska knattspyrnumenn.

Eftir HM 2002 tók Katanec við Olympiakos í Grikklandi en var bara í eitt tímabil. Greinilegt er að landsliðsþjálfarastarfið á betur við hann því síðan þá hefur hann þjálfað bæði makedónska landsliðið sem og lið Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Ferillinn hefur þó sjálfsagt ekki þá stefnu sem hann vonaðist eftir á sínum tíma, er hann kom slóvenska landsliðið á heimskortið fyrir rúmum áratug síðan. En nú er hann kominn aftur heim og hyggst á að bæta landsmönnum heldur slakt gengi eftir að liðið náði þeim frábæra árangri að komast á HM 2010 í Suður-Afríku.

Hans fyrsta alvöru verkefni verður gegn Íslandi á föstudaginn en þar fær hann tækifæri til að koma sínu liði á beinu brautina. Liðið er einnig vel meðvitað um að tap í þeim leik gerir möguleika þess á að komast áfram upp úr riðlinum og alla leið til Brasilíu afar litla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×