Fótbolti

Sölvi Geir: Er í nógu góðu standi

Sölvi Geir Ottesen segist alltaf hafa stefnt á að komast í íslenska landsliðið fyrir leikinn gegn Slóveníu, þrátt fyrir að hafa ekkert spilað með félagsliði sínu.

Ísland mætir Slóvenum hér í Ljubljana á föstudaginn og Sölvi ræddi við blaðamenn á hóteli íslenska landsliðsins í dag.

„Þetta er mikilvægur leikur og sigur þýðir að við erum komnir í mjög góða stöðu," sagði Sölvi Geir en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Sölvi Geir hefur lítið fengið að spila með félagsliði sínu, FCK í Danmörku, en var engu að síður vongóður um að halda sæti sínu í landsliðinu.

„Ég tel mig nógu góðan til að vera í þessum hóp þó svo að ég sé ekki að spila í hverjum einasta leik. Ég er í góðu standi. Ég hef spilað þrjá æfingaleiki með FCK og tvo varaliðsleiki og þó svo að það sé ekki á sama hraða og í deildinni fékk ég mikið úr því og lagði mig allan fram."

Sölvi á von á erfiðum leik fyrir íslensku varnarmennina. „Þeir eru með klókan framherja sem maður þarf að vera nálægt, enda með ágætan hraða og fljótur að skjóta boltanum. Svo eru þeir líklega að stilla upp tveimur háum leikmönnum á köntunum sem munu jafnvel reyna að skjóta sér á bak við okkur. Við þurfum að hafa auga á þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×