Fótbolti

Meiðslafrír í fyrsta sinn í sex ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson er allur að koma til eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla í haust. Hann verður líklega í stóru hlutverki þegar að Ísland mætir Slóveníu í Ljubljana á föstudagskvöldið.

Íslenska landsliðið kom saman á mánudag og hefur nýtt tímann vel. Liðið er með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina og má ekki við því að tapa á föstudaginn ætli það sér að gera alvöru atlögu að toppbaráttu riðilsins.

Slóvenar eru þó með sterkt lið og ríka knattspyrnuhefð. Liðinu gekk að vísu illa í fyrstu leikjum sínum í riðlinum en hefur nú skipt um þjálfara og ætlar sér að nota leikinn gegn Íslandi til að koma sér aftur á beinu brautina.

„Við höfum tekið fundi á hverjum degi frá því á mánudaginn og höfum fengið mikið af upplýsingum um liðið. Við komum því tilbúnir til leiks," sagði Kolbeinn en heyra má viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan. „Við þurfum að vera klárir í bardaga."

Ísland mætti Rússlandi í æfingaleik í síðasta mánuði og Kolbeinn segir að Lars hafi verið ánægður með margt í þeim leik. Rússar unnu þá 2-0 sigur.

„Lars var ánægður með varnarleikinn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá gáfum við fá færi á okkur. Við misstum boltann kannski of oft og vorum ekki nógu beittir fram á við. Við vorum með fimm framherja í liðinu og ég tel að við þurfum að spila okkur betur inn í það."

„Ég er mjög bjartsýnn á að það takist. Við æfðum vel í gær og það gekk margt upp á æfingu. Vonandi tekst okkur að yfirfæra það á leikinn."

Kolbeinn segir að áherslan verði fyrst og fremst lögð á sterkan varnarleik. „Við munum ekki gefa færi á okkur en vonandi tekst okkur svo að spila betri sóknarleik en gegn Rússunum. Vonandi sýnum að við lærðum eitthvað af þeim leik."

Kolbeinn, sem spilar með Ajax í Hollandi, var lengi frá keppni í haust vegna meiðsla í öxl en slík meiðsli höfðu verið að plaga hann lengi. „Ég byrjaði að æfa aftur í janúar og mér hefur gengið mjög vel. Ég finn að ég er að komast í betra form. Ég hef spilað einn heilan leik og þarf ég því aðeins meiri tíma til að koma mér í mitt allra besta form."

„Annars er líkaminn mjög góður. Ég finn ekki fyrir neinu og þannig hef ég ekki verið í sex ár. Núna get ég einbeitt mér að því að spila fótbolta án þess að pæla í líkamlegu ástandi. Ég fer nú ekki í návígi með það í huga að þurfa snúa hinni öxlinni að manninum eða óttast að hún detti úr lið. Það er mjög þægilegt - sérstaklega fyrir framherja sem þarf að nota hendurnar vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×