Fótbolti

Kolbeinn: Ég á að nýta svona færi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubjlana skrifar
Kolbeinn í leiknum í kvöld.
Kolbeinn í leiknum í kvöld. Mynd/AP
Kolbeinn Sigþórsson var kátur eftir leik Íslands og Slóveníu í gær en strákarnir unnu þá góðan 2-1 sigur eftir slakan fyrri hálfleik.

„Það var gríðarlega gott að vinna þennan leik. Þetta leit ekki vel út í hálfleik en við rifum okkur upp í seinni hálfleik. Þetta var frábær sigur," sagði Kolbeinn.

„Það sem breyttist í seinni hálfleik er að við færðum okkur framar á völlinn og pressuðum meira á þá. Svo kveikti markið hans Gylfa vel í okkur og gott að við eigum menn í liðinu sem geta stigið upp."

„Við vorum afslappaðri eftir jöfnunarmarkið og við náðum að spila betur og skapa fleiri færi. Þeir reyndu að beita löngum boltum en okkur tókst að verjast vel og halda markinu hreinu í seinni hálfleik."

„Við náðum að gera vel úr okkar málum í seinni hálfleik og sigurinn er gríðarlega sætur."

Stuttu eftir jöfnunarmark Gylfa komst Kolbeinn einn í gegnum vörn Slóvena en lét verja frá sér. „Ég á að skora úr svona færum. Þetta var kannski ekki minn besti leikur en íslenska landsliðið á mig vonandi inni í næstu leikjum."

„Nú erum við með í toppbaráttu riðilsins og við stefnum áfram á sigur í hverjum leik. Vonandi fáum við stuðning þjóðarinnar til þess."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×