Enski boltinn

Wenger: Megum ekki tapa aftur á tímabilinu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni hefur sagt leikmönnum sínum að þeir megi ekki tapa einum leik til viðbótar á tímabilinu ætli liðið að ná Meistaradeildarsæti.

Arsenal er fjórum stigum á eftir erkifjendum sínum í Tottenham sem er síðasta sætið sem gefur sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Arsenal sigraði Sunderland 1-0 um helgina og hefði liðið hæglega getað unnið stærra en Arsene Wenger segir það ekki skipta máli heldur stigin þrjú sem liðið landaði.

„Það var pressa á okkur að vinna leikinn, við höfum ekki efni á því að tapa stigum,“ sagði Wenger eftir leikinn en Arsenal hefur verið í Meistaradeildinni 16 ár í röð.

„Ég sagði eftir leikinn gegn Chelsea að við erum í stöðu sem leyfir ekki fleiri töpuð stig. Sama hvar við leikum, við þurfum að vinna.

„Við nýttum færin okkar gegn Sunderland ekki nógu vel. Við kláruðum ekki það sem við sköpuðum. Við sköpuðum færi, það er jákvætt.

„Stundum er þetta svona, ef þú skoðar leikina okkar þá skorum við stundum fimm, sjö og svo allt í einu ekkert vegna þess að þetta lið er enn að læra. Við þurfum að vera skilvirkari,“ sagð Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×