Enski boltinn

Rush varar Bale við því að fara frá Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Mynd/AFP
Ian Rush, landi Gareth Bale og fyrrum markakóngur Liverpool, segir að Gareth Bale verði að hugsa sig vel um áður en hann ákveður að yfirgefa ensku úrvalsdeildina. Fjölmiðlar hafa orðað Wales-manninn við spænsku risana Real Madrid og Barcelona.

Ian Rush fór á hátindi ferils síns frá Liverpool til ítalska liðsins Juventus en kom fljótt til baka eftir að lítið gekk hjá honum í ítalska boltanum.

„Þetta verður að vera eitthvað sem hann er mjög ánægður með. Hann mun læra mikið af því að fara út en verður hann ánægður," segir Ian Rush í viðtali við BBC.

Rush fór til Ítalíu sem einn af mestu markaskorurunum í Evrópu (30 mörk í 42 leikjum tímabilið á undan) en skoraði bara 7 mörk í 29 leikjum í ítölsku deildinni áður og snéri aftur til Liverpool árið eftir.

„Þetta var mikið menningarsjokk fyrir mig. Það er auðveldara í dag en fyrir tuttugu árum en Gareth verður að finna sér stað þar sem hann er sáttur. Þegar þú ert ekki ánægður þá spilar þú ekki þinn besta bolta," sagði Ian Rush.

„Hann er ánægður hjá Spurs og það skiptir mestu máli," sagði Rush en Gareth Bale skoraði bæði mörk Tottenham um síðustu helgi og er nú kominn upp í 19 mörk.

„Tilboðin munu berast hvort sem Tottenham kemst í Meistaradeildina eða ekki. Ef Gareth vill fara þá tekur hann ákvörðunina með ráðgjöfum sínum. Það reynir á Spurs í sumar að bjóða honum framtíðarsamning," sagði Rush.

„Ef Gareth hefur metnað fyrir því að vinna titla þá á hann mun betri möguleika á því með liðum eins og Barcelona, Manchester United eða Real Madrid. Tottenham er ekki nálægt því að vinna ensku deildina eða Meistaradeildina," sagði Rush.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×