Innlent

"Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa sloppið"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir Skjáskot
Fyrir hver fimm börn sem fæðast hér á landi árlega fer fram ein fóstureyðing. Þetta er meðal þess sem fram kom í sjónvarpsþættinum Málinu á Skjá einum sem sýndur var á mánudagskvöldið.

Komið var víða við í þættinum og rætt við fólk úr læknastétt, forsvarsfólk trúfélaga, þingmenn, sérfræðinga og fólk sem hefur sögu að segja. Meðal viðmælenda í þættinum var Freyja Haraldsdóttir sem spurð er út í sína skoðun á fósturskimunum, hnakkaþykktarmælingum og fóstureyðingum.

„Það er eðlilegasta mál í heimi að það sé frelsi kvenna að fara í fóstureyðingu. Það er hluti af því að hafa stjórn á eigin líkama," segir Freyja sem þó telur mikilvægt að heildarmyndin sé skoðuð í hverju tilfelli. Velta þurfi fyrir sér hvers vegna verið sé að skima fóstur.

„Er markmiðið að hreinsa til í margbreytileika mannlífsins og taka í burtu ákveðna hópa af því okkur finnst þeir óþægilegir eða þeir kosta samfélagið mikinn pening? Er líf fatlaðra barna til dæmis svo hræðilegt að það sé betra að þau fæðist ekki heldur en að vera til? Er það pælingin?" spyr Freyja.

Hún veltir fyrir sér hvar þetta muni enda.

„Hvað ef við finnum samkynhneigða genið? Ætlum við að skima eftir því?" segir Freyja og minnir á að konur njóti ekki alltaf sömu réttinda og karlar.

„Eigum við að fara að eyða fóstrum á grundvelli kyns? Við þurfum að spyrja okkur allra þessara spurninga ef við ætlum að bjóða upp á fósturskimanir."

Sölvi TryggvasonSkjáskot
Sölvi Tryggvason, umsjónarmaður þáttaraðarinnar, spurði Freyju út í sína persónulegu skoðun á fósturskimunum og hnakkaþykktarmælingum. Í slíkri mælingu er hægt að fá metin líkindi á því að fóstrið sé með litningagalla. Freyja segist líta svo á að hún sé hólpinn. Hún sé ekki mjög hrifin af fósturskimunum sem fötluð kona.

„Ég er bara heppin að hafa fæðst þegar fósturskimanir voru ekki eins miklar. Ég veit ekki hvað foreldrar mínir hefðu tekið ákvörðun um að gera."

„Ef þau hefðu vitað að ég væri mikið hreyfihömluð, hvort þau hefðu eytt mér eða ekki? Við vitum það ekki. Þá væri ég kannski ekki til. Það er svo ótrúlega skemmtilegt að lifa þessu lífi og mikilvægt að fá að gera það," segir Freyja og bætir við:

„Það væri mjög skrýtið ef mér fyndist þetta í lagi því þá væri ég að segja að það væri í lagi að eyða fólki eins og mér."

Guðmundur Ármann PéturssonSkjáskot
Í þættinum á mánudagskvöldið var einnig rætt við Guðmund Ármann Pétursson sem á barn með Downs-heilkenni. Aðspurður um það hvernig það sé að vera foreldri barns með Downs-heilkenni svarar Guðmundur:

„Það eru forréttindi. Það eru algjör forréttindi. Þó að einstaklingur hafi Downs-heilkenni þá er hann ekki veikur. Það er ekkert að. Hann er eins og hann er. En hann verður veikur. Hann fær kvef og hann fær þetta og hann fær hitt. En hann er ekki veikur," segir Guðmundur. Hann er ekki hrifinn af fósturskimunum.

„Í meðgöngu er einn hópur í okkar fjölbreytta þjóðfélagi tekinn út fyrir sviga," segir Guðmundur og á við fóstur sem greind hafa verið með downs-heilkenni. Hann samsinnir vangaveltu Sölva hvort börnum með downs-heilkenni hafi fækkað á síðustu árum.

„Ég man að vitnað var í yfirlækni uppi á fæðingardeild að það væri teljandi á fingrum annarrar handar þeir foreldrar sem kysu að eiga barn þegar vitneskja væri komin um að barnið hefði Downs-heilkenni."

Málið er á dagskrá Skjásins á mánudagskvöldum klukkan 22.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.