Enski boltinn

Suarez vill vera lengi hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Luis Suarez áætlar að vera áfram hjá Liverpool um ókomin ár en hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.

Suarez skoraði í 2-2 jafntefli Liverpool gegn Arsenal í gær og er nú kominn með 22 mörk í öllum keppnum á tímabilinu, þar af átján deildarmörk.

Hann kom til Liverpool fyrir tveimur árum síðan og hefur reglulega verið orðaður við önnur félög, víða um Evrópu. Nú síðast var hann sagður á leið til Bayern München í sumar.

„Ég vona að ég verði áfram hjá Liverpool í mjög langan tíma, vegna þess að þetta er risastórt félag sem krakka dreymir um að spila með," sagði hann í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Ég er afar stoltur af því að vera hjá félagi eins og Liverpool og á þeim tveimur árum sem ég hef verið hér hef ég upplifað mörg sérstök augnablik."

„Ég vona að ég geti hjálpað liðinu eins lengi og ég mögulega get, til að gera félagið og stuðningsmennina ánægða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×