Innlent

Íranssenan skrifuð út

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Birgitta hefur verið kvikmyndagerðarfólkinu innan handar.
Birgitta hefur verið kvikmyndagerðarfólkinu innan handar. Mynd/GVA
„Hann hefur ekki séð nýjustu útgáfu handritsins," segir þingkonan Birgitta Jónsdóttir um ummæli Julian Assange, stofnanda upplýsingaveitunnar WikiLeaks, en hann gagnrýnir handrit væntanlegrar kvikmyndar sem fjallar um þessi umdeildu samtök.

Birgitta, sem starfaði náið með Assange á sínum tíma innan samtakanna, segist sjálfri hafa brugðið þegar hún sá frumútgáfu handritsins, en Assange sagði það vera hluta af áróðursherferð gegn uppljóstrunarsamtökum um allan heim, og einnig gegn Íran.

Í upphafssenu upprunalega handritsins unnu Íranir að kjarnorkuvopni, en samkvæmt upplýsingum frá bandarísku leyniþjónustunni var ekkert sem benti til þess að sú væri raunin.

Birgitta segir að verið sé að endurskrifa handrit myndarinnar, sem mun bera nafnið The Fifth Estate, og feli breytingar meðal annars í sér að fyrrnefnd Íranssena verði fjarlægð.

„Mér tókst ásamt öllum, bæði leikstjóra og leikurum, að sannfæra handritshöfundinn um að taka senuna út."

Assange dvelur í sendiráði Ekvador í Lundúnum eftir að stjórnvöld í Ekvador veittu honum pólitískt hæli, en hann á það á hættu að verða framseldur til Svíþjóðar þar sem hann er eftirlýstur vegna ásakana um tvær nauðganir.

Birgitta segir að Assange sé í hálfgerðum lás gagnvart gerð myndarinnar, og hafi ekki reynt að hafa áhrif á handritið. „Mér finnst þessi gagnrýni svolítið framhleypin hjá honum, því það er fullt af fólki, þar á meðal ég, að reyna að tryggja að það sé jafnvægi í þessari mynd um WikiLeaks."

Tökur eru hafnar á myndinni og fara meðal annars fram hér á landi. Frumsýning er áætluð næsta haust.


Tengdar fréttir

Assange: Kvikmyndin um WikiLeaks hluti af áróðursherferð

Julian Assange, stofnandi upplýsingaveitunnar WikiLeaks, segir að væntanleg kvikmynd sem byggð er á upphafsárum WikiLeaks sé liður í stórfelldri áróðursherferð gegn uppljóstrunarsamtökum víða um heim.

Egill leikur Egil

Atriði fyrir Hollywood-myndina The Man Who Sold the World verður tekið upp í stúdíói Silfurs Egils í dag.

Fyrsta myndin úr bíómyndinni um Wikileaks

Fyrsta myndin úr Wikileaks-bíómyndinni hefur nú verið birt á internetinu en hún er tekin á Austurvelli og þar sjást þeir Benedict Cumberbatch, sem leikur Julian Assange, og Daniel Brühl, sem leikur Daniel Domscheit-Berg fyrrum talsmann Wikileaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×