Innlent

Aðeins á valdi færustu hellakafara að skoða Silfru

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Það er aðeins á valdi færustu hellakafara að skoða gjánna Silfru þar sem hún er hvað dýpst. Þeir sem hafi lent í slysum í gjánni þekki ekki aðstæður nógu vel, segir köfunarkennari.

Fjölmargir leggja leið sína á Þingvelli á hverju ári til að kafa í Silfru. Nú hefur verið ákveðið að banna köfun á meira en 18 metra dýpi í gjánni.

Það er meðal annars gert vegna slysa sem orðið hafa í gjánni og til að reyna að tryggja öryggi kafara þar. Rétt fyrir ármótin lést karlmaður á fertugsaldri í köfunarslysi í gjánni þegar hann var að kafa á 40 metra dýpi. Hann er annar maðurinn á aðeins um tveimur og hálfu ári sem lætur lífið við köfun í gjánni.

Anna María Einarsdóttir köfunarkennari segir félaga í Sportköfunarfélagi Íslands fagna því að settar séu reglur um köfun í Silfru.

„Þetta náttúrulega snýst fyrst og fremst um bara að reyna að tryggja öryggi þeirra kafara sem ekki eru vanir þessum aðstæðum þannig að við fögnum öllu því sem að Þingvallanefnd er að gera núna."

Hún segir dæmi um að kafarar sem þekki ekki Silfru fari dýpra en þeir ráði við.

„Það eru einhver dæmi um það að fólk sé að fara svolítið fram úr sjálfu sér þegar það kemur hér úr heitum sjó. Kemur hér í fyrsta skipti kannski í þurrbúning og fer svo niður á dýpi sem það ræður ekki við við þessar aðstæður."

Köfun í gjánni sé krefjandi þegar komið er niður fyrir átján metrana. Loftnotkun verði meiri eftir því sem dýpra er farið og þá þurfi kafarar að vera í þurrbúningum í gjánni í stað blautbúninga og köfun í þeim sé flóknari.

„Það er fólk sem er ekki staðkunnugt sem að hefur lent í þeim slysum sem hafa orðið hér í Silfru því miður."

Hún segir það ekki skemma fyrir köfurum að komast framvegis ekki neðar en á 18 metra dýpi. Hingað til hafa kafarar verið að fara niður á allt að sextíu metra dýpi í gjánni.

„Þetta er mjög þröngt og lítil gjá þannig að þetta er ekki á færi nema allra færustu hellakafara að gera það og þá með sérstakan búnað og kafa eftir línu og annað slíkt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×