Innlent

Besti staðurinn til að vera á

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hin nepalska Priyanka Thapa fékk tímabundið dvalarleyfi hér á landi á síðasta ári af mannúðarástæðum.
Hin nepalska Priyanka Thapa fékk tímabundið dvalarleyfi hér á landi á síðasta ári af mannúðarástæðum.
Hin nepalska Priyanka Thapa fékk tímabundið dvalarleyfi hér á landi á síðasta ári af mannúðarástæðum. Nú lærir hún lyfjafræði við HÍ og brillerar á prófum, auk þess að sinna fötluðum samnemanda sínum sem einnig gengur vel í náminu.

Hálkan er svo gríðarleg í Norðlingaholtinu þegar Fréttablaðsfólk fer þangað að hitta Priyönku Thapa að bíllinn skransar út í skafl. Með góðri hjálp og lagni kemst hann þó aftur á rétta braut.

Þarna býr Priyanka hjá Guðjóni Reykdal og foreldrum hans og aðstoðar hann við daglegt líf því hann er bundinn hjólastól. „Ég byrja klukkan sjö á morgnana að aðstoða Guðjón með dagleg störf svo sem að klæða hann í peysuna og finna til matinn. Þetta er gleðileg og mjög skemmtileg vinna vegna þess að hann er með mér í skólanum," segir hún.

Priyanka og Guðjón eru bæði að læra lyfjafræði í Háskóla Íslands og stunda námið stíft. „Við förum í skólann á morgnana og lærum síðan allan daginn," lýsir hún. „Ég skrifa niður fyrir okkur bæði það sem kennarinn segir og þar sem kennslan er öll á íslensku fæ ég aðstoð frá Guðjóni með að fara yfir fyrirlestrana. Kennararnir eru líka mjög góðir og hika ekki við að hjálpa mér."

Stefnir á doktorsnám

Priyanka er 24 ára. Hún ólst upp í Katmandú í Nepal, yngst fjögurra systkina. Faðirinn yfirgaf fjölskylduna þegar Priyanka var tveggja ára en móðirin og elsti bróðirinn unnu fyrir heimilinu en bróðirinn lést af slysförum árið 2008. Faðir hennar er líka dáinn. Þegar dvalarleyfi Priyönku rann út hér á landi fyrir rúmu ári óttaðist hún að verða neydd til að giftast einhverjum karli sem gæti séð fjölskyldunni farborða ef hún færi aftur til heimalandsins. Þau eru örlög margra kynsystra hennar þar. Hún vildi umfram allt vera áfram á Íslandi og það vill hún enn. „Þetta er besti staðurinn sem ég gæti óskað mér að vera á," segir hún. "Ég hef sótt um ríkisborgararétt og ef ég fengi hann væri það upphaf nýs ferðalags."

Priyanka talar ljómandi góða íslensku þótt hún hafi ekki dvalið hér á landi nema rúm þrjú ár. Hún kom upphaflega til landsins sem barnfóstra til Þórólfs Gunnarssonar framkvæmdastjóra og Önnu Láru Steingrímsdóttur lyfjafræðings og barna þeirra. Þau eru hennar nýja fjölskylda.

Meðfram starfinu stundaði hún nám við verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis. Þar sýndi hún og sannaði að hún er mikil lærdómsmanneskja og í nýafstöðnum jólaprófum í lyfjafræðinni kveðst hún hafa fengið góðar einkunnir enda hafi hún lagt mikið á sig. „Maður uppsker eins og maður sáir," segir Priyanka, sem kveðst búin með eitt og hálft ár í lyfjafræðinni og annað eins sé eftir af BS-náminu. Því næst taki við tvö ár í MS-námi. „Svo stefni ég á doktorsnám (Ph.D) að því loknu," tekur hún fram.

Spurð hvað hún geri í frístundum svarar Priyanka: „Yfirleitt hef ég ekki mikinn frítíma því námið og vinnan taka nær allan minn tíma. En ég hef mjög gaman af því að elda og prufa eitthvað nýtt í þeim efnum. Mér þykir líka skemmtilegt að skrifa sögur og ljóð." Síðastliðið sumar kveðst hún hafa ferðast talsvert. „Ég fór til Akureyrar og Mývatns, líka til London, Svíþjóðar og Danmerkur. Svo fór ég í flúðasiglingu og gekk mikið um í Reykjavík til að kynnast höfuðborginni betur."

Priyanka með Guðjóni að læra
Sakna er ekki nógu sterkt orð

Öðru hverju kveðst Priyanka hafa samband við fólkið sitt í Nepal, þó sjaldan vegna þess hve dýrt það er að hringja á milli landa. „Systkini mín eru ekki með netsamband en stundum fara þau á netkaffihús og geta haft samband við mig þannig," útskýrir hún. „Fjölskyldan hefur það fínt og ég vona að hún skilji nú hvað ég vil gera við líf mitt. Upp á síðkastið hef ég sent henni smá peninga og veit að hún er ánægð." Langar hana ekki í heimsókn? „Jú, auðvitað, en ég er svo hrædd um að mér yrði ekki hleypt aftur hingað. Með nepölsku vegabréfi er ekki öruggt að ég kæmist aftur frá Nepal vegna vandamála þar í landi."

Priyanka segir orðið sakna ekki nærri nógu sterkt til að lýsa því hversu sárt hún sakni fólksins síns. „Stundum hugsa ég hvað ég sé ólánsöm að vera svona langt frá mömmu og systkinum mínum en aftur á móti gerir það mig glaða að vera hér þegar ég lít á það sem ég hef í dag og það sem ég mun hafa í framtíðinni. Ég á líka góða fjölskyldu á Íslandi, hér er skólinn minn og vinir mínir. Allir sem ég kynnist hvetja mig til að ná því besta út úr lífinu og líf mitt í dag er það besta sem ég gæti óskað mér."

Priyanka er enn í jólafríi og hún og Guðjón ætla að nota tækifærið þennan daginn og skreppa austur á Selfoss að hitta nepalska stúlku sem er nýflutt til landsins. Guðjón er á sérútbúnum bíl sem hann ekur sjálfur og er sestur undir stýri þegar Fréttablaðsfólk skreiðist aftur af stað út í hálkuna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.