Fótbolti

Guðlaugur Victor tryggði NEC jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson fagnar marki sínu í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar í NEC gerðu 1-1 jafntefli við NAC Breda í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld en íslenski miðjumaðurinn tryggði sínum mönnum stig í þessum leik.

Rydell Poepon kom NAC Breda í 1-0 strax á 4. mínútu leiksins en Guðlaugur Victor jafnaði leikinn tveimur mínútum fyrir hálfleik. Hvorugu liðinu tókst síðan að tryggja sér sigurinn í seinni hálfleiknum.

Þetta var fyrsta mark Guðlaugs Victors á þessu tímabili en hann skoraði 2 mörk í 27 leikjum á síðustu leiktíð sem var hans fyrsta í herbúðum NEC-liðsins.

Það hefur lítið gengið hjá NEC á tímabilinu til þessa enda var liðið aðeins búið að ná í eitt stig í fyrstu fjórum umferðunum og sat í botnsæti deildarinnar.

Guðlaugur Victor lék allan tímann á miðri miðjunni en markið skoraði hann eftir sendingu frá Navarone Foor sem spilar vinstra megin við hann á þriggja manna miðju NEC. Guðlaugur Victor náði sér einnig í gult spjald á 88. mínútu leiksins.

NEC og NAC Breda eru áfram í tveimur neðstu sætum hollensku úrvalsdeildarinnar með tvö stig hvort lið en markatala NEC er reyndar mun verri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×