Innlent

Inflúensan er fyrr á ferðinni í ár

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
„Við erum svona hálfum mánuði á undan miðað við í fyrra og árið þar á undan," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir um inflúensuna sem nú geisar á landinu.

Inflúensan er skæðust hér á landi og í Noregi af þeim 26 ríkjum sem senda upplýsingar um stöðu þessara mála til Sóttvarnastofnunar Evrópu, ECDC. Tilkynningar um inflúensulík einkenni eru mun fleiri nú en á sama tíma síðustu ár. Tilkynningum um inflúensulík einkenni hefur fjölgað mikið síðustu vikur sem og staðfestum inflúensutilvikum. Alls voru 22 staðfest tilfelli tilkynnt til sóttvarnalæknis í annarri viku ársins, sem eru nýjustu tölur.

Haraldur gerir ráð fyrir því að inflúensufaraldurinn muni einnig ná hámarki fyrr en undanfarin ár, þegar inflúensan náði hámarki seinni hluta febrúar. „Það er smá slaki í augnablikinu en hún á sjálfsagt eftir að stefna áfram upp en ekki með jafn miklum hraða og undanfarnar vikur. Þetta mun ábyggilega ganga yfir hér allan janúar og langt fram í febrúar."

Inflúensan hefur nú greinst í flestum landshlutum og meðalaldur þeirra sem greinast er 37 ár. Flensan er að færast í aukana í nítján af þeim 26 ríkjum sem tilkynntu Sóttvarnastofnun Evrópu um stöðu smitmála í annarri viku ársins. Inflúensan er útbreidd í tólf Evrópuríkjum, svæðisbundin í sex ríkjum og fátíð í sjö ríkjum. Aðeins í Búlgaríu voru engin tilvik inflúensu tilkynnt. „Norðmenn og við erum dugleg í þessu. A-tegundir flensunnar eru yfirgnæfandi. Þetta er ýmist af svínastofni, sem er að breytast í að verða árstíðabundinn, og svo þessi gamli stofn sem var alltaf að hrjá okkur hér á árum áður," segir Haraldur.

Þá hefur tilfellum RS-veiru fjölgað, en átján greindust með staðfesta sýkingu í annarri viku ársins. Börn á fyrsta og öðru ári greinast helst með veiruna en sex af þeim átján sem greindust síðast voru á aldrinum 79 til 92 ára, sem er óvenjuhátt hlutfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×