Íslenski boltinn

Ofsaleg framkoma er alltaf rautt spjald

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dómararnir hafa staðið í ströngu í Pepsi-deildinni í ár líkt og síðustu ár.
Dómararnir hafa staðið í ströngu í Pepsi-deildinni í ár líkt og síðustu ár. Mynd/Anton
Nokkur umræða hefur verið um hrindingar í íslenska boltanum. Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður ÍA, fékk að líta rauða spjaldið á miðvikudag fyrir að hrinda Þórsaranum Ármanni Pétri Ævarssyni. Jóhannes ýtti nokkuð ákveðið við honum en Ármann hefði líklega getað staðið í lappirnar hefði hann kosið að gera svo.

Við höfum einnig séð atvik eins og í leik Keflavíkur og Fram þar sem maður fór niður við litla snertingu. Í bæði skiptin fékk árásaraðilinn að líta rauða spjaldið.

Fréttablaðið spurði Gylfa Þór Orrason, formann dómaranefndar KSÍ, almennt út í skilgreininguna á slíkri háttsemi.

„Ef boltinn er ekki í leik þá gerast menn sekir um ofsalega framkomu ef þeir haga sér þannig. Tólfta grein knattspyrnulaganna kveður á um að vísa beri leikmanni af velli sem sýnir af sér ofsalega framkomu á meðan boltinn er ekki í leik,“ segir Gylfi Þór.

„Síðan verður dómari að meta hvort sá sem verður fyrir slíku sýni af sér óíþróttamannslega framkomu með því að kasta sér niður eða álíka. Það er þó aldrei hægt að gefa meira en gult spjald fyrir það.“

Gylfi Þór segir að hrinding gefi ekki alltaf rautt spjald. Dómarar þurfi að fara eftir þeirri skilgreiningu sem gefin er upp. Hún er ofsaleg framkoma.

En er það litið hornauga ef dómarar taka ekki fast á svona atriðum og sleppa mönnum sem ýta frá sér?

„Já, í raun og veru. Dómarar eiga að fara eftir lögunum og þurfa að hafa stjórn á leiknum. Leikmenn vita að þeir setja sig í hættu með því að haga sér á þennan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×