Lífið

Sjöunda Búllan opnuð á Selfossi

Hamborgarabúlla Tómasar opnar sitt fyrsta útibú á landsbyggðinni á Selfossi.
Hamborgarabúlla Tómasar opnar sitt fyrsta útibú á landsbyggðinni á Selfossi.
„Þetta er skyndibitabær eins og allir vita. Það er helsta ástæðan fyrir því að hann varð fyrir valinu," segir Gunnar Már Þráinsson, rekstrarstjóri Búllunnar á Selfossi.

Hamborgarabúlla Tómasar opnar sitt fyrsta útibú á landsbyggðinni í kringum 20. janúar, við Eyraveg á Selfossi. Þetta verður sjöunda Búllan í röðinni. Fyrir eru staðir við Geirsgötu, Ofanleiti, Bankastræti, Bíldshöfða, í Hafnarfirði og í London en stutt er síðan síðastnefndi staðurinn var opnaður. Fyrsti staðurinn, við Geirsgötuna, var aftur á móti opnaður í apríl 2004.

Að sögn Gunnars er kominn mikill spenningur í Selfyssinga enda verður þetta eini staðurinn í bænum sem sérhæfir sig í hamborgurum. „Fólk er að taka vel í þetta og það hefur verið að kíkja hingað inn. Þetta hefur líka fengið góð viðbrögð hjá sumarbústaðafólkinu hérna í kring."

Framkvæmdir hafa staðið yfir í um fjóra mánuði og aðeins á eftir að ganga frá smáatriðum áður en hægt er að opna staðinn. Eigandi er Tómas A. Tómasson, sem er best þekktur sem Tommi í Tommaborgurum, sem hann stofnaði árið 1981 og rak í rúm þrjú ár.

Spurður hvort fleiri Búllur séu fyrirhugaðar utan höfuðborgarsvæðisins segir Gunnar Már: „Við höfum tröllatrú á Selfossi. Það er ekkert planað eins og staðan er í dag en það getur vel farið svo ef þetta gengur upp." Einn annar Búllustaður er þó í fæðingu, í Kaupmannahöfn. „Það er búið að finna húsnæði en fyrst ætlum við að klára Selfoss."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.