Enski boltinn

Zidane heillaður af Bale

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zinedine Zidane segir að sá leikmaður sem hafi heillað hann hvað mest á tímabilinu spili ekki í Meistaradeild Evrópu - heldur Evrópudeildinni.

Zidane er nátengdur Real Madrid og ekki útilokað að hann verði hluti af þjálfarateymi félagsins á næstu leiktíð. Hann sá Bale spila þegar að Tottenham mætti Lyon í febrúar síðastliðnum.

„Sá leikmaður sem hefur heillað mig mest í ár spilar ekki í Meistaradeildinni, heldur í hinni keppninni. Og það er Bale," sagði Zidane.

„Hann er einstakur. Hann er ótrúlega fljótur og hraðabreytingin sömuleiðis. Hann getur rokið af stað þrátt fyrir að hafa lítið pláss. Hann býr þar að auki yfir mikilli tækni sem er líka mjög mikilvægt. Hann spilar ótrúlega vel og því má ekki gleyma."

„Mér finnst mikið til hans koma. Ég hef séð hann spila nokkrum sinnum með eigin augum, nýlega gegn Lyon. Þó svo að það hafi ekki verið hans besti leikur sá maður að hann gat komið manni á óvart í hvert skipti sem hann kom við boltann."

Bale skoraði glæsilegt mark í 2-1 sigri Tottenham á Swansea um helgina en það má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×