Íslenski boltinn

Stjörnumenn í öllum bikarúrslitaleikjum ársins 2013

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn urðu bikarmeistarar í körfubolta í febrúar.
Stjörnumenn urðu bikarmeistarar í körfubolta í febrúar. Mynd/Daníel
Karlalið Stjörnunnar í fótbolta, körfubolta, handbolta og blaki hafa staðið sig einstaklega vel í bikarkeppnum síðustu tólf mánuði. Öll karlalið félagsins í þessum fjórum stærstu boltagreinum á Íslandi hafa komist alla leið í bikarúrslitaleikinn.

Silfurskeiðin hefur haft nóg að gera í að undirbúa bikarúrslitaleiki sína og þeir eru örugglega komnir í góða æfingu og klárir í slaginn í Laugardalnum í dag þegar úrslitaleikur Borgunarbikars karla fer fram á Laugardalsvellinum.

Stjörnumenn hafa reyndar aðeins unnið eitt gull á þessu ári en það kom í hús þegar körfuboltalið félagsins vann 91-79 sigur á Grindavík í bikarúrslitaleik körfuboltans sem fór fram í febrúar.

Fótboltaliðið tapaði á móti KR í bikarúrslitaleiknum í fyrra en getur bætt fyrir það á móti Fram í dag.

Handboltaliðið tapaði í bikarúrslitaleik á móti ÍR í mars en Stjörnumenn komust óvænt í bikarúrslitaleikinn þrátt fyrir að spila í b-deildinni síðasta vetur.

Blakliðið tapaði síðan í æsispennandi bikarúrslitaleik á móti HK en Stjarnan komst í 2-1 í leiknum en tapaði tveimur síðustu hrinunum.

Bikarúrslitalið Stjörnunnar í karlaflokki á síðustu tólf mánuðum

Fótbolti - 18. ágúst 2012 - 1-2 tap fyrir KR

Körfubolti - 16. febrúar 2013 - 91-79 sigur á Grindavík

Handbolti - 10. mars 2013 - 24-33 tap fyrir ÍR

Blak - 24. mars 2013 - 2-3 tap fyrir HK

Fótbolti - 17. ágúst 2013 - mæta Fram í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×