Innlent

Rafmagnsbilun í sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Sjúklingurinn var fluttur með annarri flugvél til Reykjavíkur.
Sjúklingurinn var fluttur með annarri flugvél til Reykjavíkur. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Mikill viðbúnaður var á flugvellinum í Vestmannaeyjum í hádeginu í dag þegar bilun kom upp í sjúkraflugvél Mýflugs sem var á leið frá Eyjum til Reykjavíkur með sjúkling í sjúkraflugi.

Sigurður Bjarni Jónsson, stjórnarformaður og flugöryggisfulltrúi Mýflugs, sagði í viðtali við Vísi að upphafi komið viðvörun um rafmagnsbilun og flugmennirnir því ákveðið að lenda vélinni aftur í Vestmannaeyjum. Sigurður sagði að þeir hefðu allt eins getað haldið áfram til Reykjavíkur en í svona tilvikum sé ekki tekin nein áhætta og þeir því ákveðið að snúa aftur til Vestamannaeyja.

Mýflug sendi flugvirkja í kjölfarið til Eyja með annarri vél, sem síðan flutti sjúklinginn til Reykjavíkur.

Á vef Eyjafrétta var greint frá því að tilkynnt hafi verið um eld í vélinni. Sigurður segir það byggt á misskilningi, þegar svona mál komi upp fari sms-tilkynningar á ákveðna viðbragðshópa, þar á meðal hóp sem merktur er „91 VEY ELDUR“. Þá tilkynningu hafi líklegast einhver misskilið og talið að um eld í vélinni hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×