Innlent

Vill virkari aðgerðir gegn mávinum á tjörninni

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, vill að ráðist sé í aðgerðir gegn mávum á tjörninni.

Margar fjölskyldur leggja leið sína niður að Reykjavíkurtjörn til að gefa öndunum brauð og er það oft skemmtileg stund í lífi marga barna. Mávarnir eiga það þó til að varpa skugga á skemmtunina og hefur fréttastofa heimildir fyrir því að börn hafa farið skælandi frá tjörninni eftir að þurft að horfa upp á litla andarunga hverfa inn í kjaft mávanna.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill losna við mávana af tjörninni og lagði fram tillögu þess efnis á borgarráðsfundi í gær.

„Það hafa verið aðgerðir í gangi áratugum saman en það hefur verið dregið úr þeim á undanförnum árum og til dæmis eftir að nýr meirihluti tók við þá var hætt að stugga við mávi hér við tjörnina með virkum hætti. Það var til dæmis gert með því að fæla þá burt með skotvopnum. Ég veit líka að það hefur dregið úr starfsemi sem fólst í því að fara út í eyjarnar á sundunum og spilla fyrir mávarvarpi. Að minni hyggju þarf að herða þessar aðgerðir að nýju, flæma mávinn frá tjörninni og setja upp skilti þar sem fólk er hvatt til að gefa ekki mávinum,“ segir Kjartan.

Aðspurður að því hvort þetta sé ekki misrétti gagnvart mávunum, af hverju endur ættu frekar að njóta sín á tjörninni heldur en mávurinn segir Kjartan að borgaryfirvöld vilji heldur hafa huggulegan andapoll. „Frekar en að þetta breytist í eitthvað athafnasvæði mávana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×