Lífið

Works on Paper: samsýning í i8

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Source eftir Hrein Friðfinnsson.
Source eftir Hrein Friðfinnsson. Mynd/i8
Á morgun, fimmtudag, verður samsýningin Works on Paper opnuð í i8 galleríi við Tryggvagötu. Pappír er tákn eða útgangspunktur sýningarinnar.

„Margir listamennirnir nota pappír í verkum sínum, til dæmis í ljósmyndum, hefðbundnum teikningum eða málverkum. Í öðrum verkum er að finna einhvers konar skírskotun í pappír, sem í gegnum árin hefur leikið stórt hutverk í listsköpun, þó að önnur efni séu notið í sjálf verkin,“ segir Auður Jörundsdóttir, hjá i8 galleríi.

Með vali á listafólki er leitast við að endurspegla þá möguleika sem pappírinn hefur upp á að bjóða við listsköpun, hvort sem verkin eru úr pappír eða um pappír.

„Sum listaverkin voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna en önnur áttu listamennirnir í fórum sínum,“ segir Auður jafnframt.

Í sýningunni taka 29 listamenn þátt, en margir þeirra eru heimsþekktir.

Þannig má nefna listamenn á borð við Hrein Friðfinnsson, Ignacio Uriarte, Karin Sander, Lawrence Weiner, Ólaf Elíasson, Kristján Guðmundsson, Rögnu Róbertsdóttur, Tom Friedman, Martin Creed og Önnu Barribal, svo einhverjir séu nefndir.

„Ignacio Uriarte og Hildigunnur Birgisdóttir hafa bæði unnið verk sérstaklega fyrir gallerírýmið, sem eru mjög spennandi,“ segir Auður að lokum.

Í tilefni sýningarinnar verður gefin út bók með öllum verkum sýningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.