Fótbolti

Puyol borgaði fyrir krabbameinsmeðferðina hans Miki Roque

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carles Puyol.
Carles Puyol. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miki Roque, 23 ára spænskur fótboltamaður og fyrrum leikmaður Liverpool, lést úr krabbameini um síðustu helgi og fráfall hans hefur haft mikil áhrif á spænska landsliðshópinn. Spánverjar mæta Portúgal í undanúrslitum EM í kvöld.

Miki Roque greindist með krabbamein árið 2011 og spænska blaðið El Mundo sagði frá því að þegar Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, frétti af veikindum hans þá bauðst hann til að borga fyrir krabbameinsmeðferðina hans.

Móðir Puyol kemur frá sama bæ og Miki Roque og eftir að Puyol kom inn í líf hans tókst með þeim mikill vinskapur. Puyol spilaði meira að segja í bol undir Barcelona-búningum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2011 þar sem á stóð "Anims Miki" eða "Ekki gefast upp Miki"

Puyol gat ekki spilað með spænska landsliðinu á EM vegna meiðsla en liðsfélagi hans Andres Iniesta tilkynnti það á blaðamannafundi fyrir undanúrslitaleikinn að spænska landsliðið ætlaði að vinna Evrópumótið fyrir Miki Roque.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×