Enski boltinn

Hermann: Búinn að vera æfingameistarinn í alltof langan tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson
Hermann Hreiðarsson Mynd/Nordic Photos/Getty
Hermann Hreiðarsson er hættur hjá Portmouth eftir rúmlega fjögur og hálft ár hjá félaginu og er gengin til liðs við Coventry sem er á botni ensku b-deildarinnar eins og er. Hans Steinar Bjarnason talaði við Hermann í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Ég var búinn að tala við stjórann fyrr í vikunni og spyrja hann um það hver staða mín væri og hvort ég væri að fara að spila eitthvað hjá Portsmouth. Hann sagði mér að það yrði nú eitthvað en ekki mjög mikið. Ég spurði hann því hvort að það væri ekki í lagi að ég reyndi að komast eitthvert þar sem að ég fengi að spila fótbolta. Hann tók ekki illa í það," sagði Hermann.

„Ég fékk síðan símtal á fimmtudagskvöldið frá Andy Thorn, stjóra Coventry, og hann vildi bara drífa í þessu og spurði mig hvort ég vildi ekki koma sem fyrst," sagði Hermann sem mun klára tímabilið með Coventry áður en frekara framhald á hans dvöl hjá félaginu verður ákveðið.

„Ég er ánægður með þetta og núna getur maður farið að spila fótbolta. Hásinin á mér var að angra mig til að byrja með en svo fór ég til Stebba, sjúkraþjálfara á Íslandi, og er ekki búinn að missa af æfingu síðan," sagði Hermann.

„Ég er búinn að vera að æfa á fullu í tíu vikur en hef ekki spilað í eina mínútu. Ég nenni því ekki lengur því ég er í fínu standi. Það vilja allir fá að spila fótbolta og þá aðallega í deildinni um helgina en ekki bara á æfingum. Nú er ég búinn að vera æfingameistarinn í svolítinn tíma en það væri fínt að komast í það aftur að spila fótbolta," sagði Hermann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×