Innlent

Telur ákvörðun ESA endurspegla veikleika í málflutningi stofnunarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að sú ákvörðun ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, að fá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til liðs við sig í Icesave-málinu gegn Íslandi sýni að ESA telji sig ekki hafa jafn sterkan málstað og áður. Hann telur að framkvæmdastjórnin sé ekki að ögra Íslendingum með þessari ákvörðun.

„Við lítum ekki á þetta sem neina sérstaka ögrun. Þetta er eitthvert stærsta og sérstakasta mál sem rekið hefur á fjörur dómstólsins og það er ekki óeðlilegt þó að málsaðilar notfæri sér öll þau réttarúrræði sem EES samningurinn býður upp á. Við gerðum ráð fyrir þessu fyrirfram og þess vegna kom það ekki á óvart. Okkar aðalmálflytjandi, Tim Ward, lýsti þeirri skoðun þegar hann var hérna á dögunum, meðal annars við mig og við utanríkismálanefnd að þetta væri sú leið sem þeir myndu fara," segir Össur í samtali við Vísi.

Hann segir tvennt jákvætt við þessa ákvörðun sem framkvæmdastjórnin hefur komist að niðurstöðu um. „Þessi málsmeðferð leiðir til þess að Íslendingar ná að eiga kost á því að koma skriflegum vörnum fram gagnvart athugasemdum framkvæmdastjórnarinnar áður en munnlegur málflutningur hefst," segir Össur. Þetta sé mikilvægt vegna þess að málflutningur fyrir dómstólum sé að verulegu leyti skriflegur og þetta hefði ekki verið hægt samkvæmt hinni hefðbundnu leið. Aðalmálflutningsmaður Íslendinga telji, af þessari ástæðu, að Íslendingar eigi ekki að leggjast gegn því að framkvæmdastjórn ESB taki þátt í málarekstrinum.

„Í öðru lagi, af því að þetta er einsdæmi þá dreg ég þá ályktun að ESA hafi lagst mjög fast á framkvæmdastjórnina að veita henni stuðning sinn, væntanlega í ljósi þeirra sterku röksemda sem komu fram í greinargerð íslenska málflutningsteymisins, sem var send inn fyrr á þessu ári," segir Össur. Þetta bendi til þess að þeir hafi ekki jafn sterka trú á sínum málstað og áður. „Þess vegna tel ég að þetta endurspegli veikleika af þeirra hálfu," segir Össur.

Össur telur að Íslendingar eigi ekki að láta málið hafa áhrif á aðildarumsóknina að ESB vegna þess að það myndi gefa til kynna að við hefðum ekki trú á okkar málstað og værum hrædd við málatilbúnað framkvæmdastjórnarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×