Enski boltinn

Umboðsmaður Tevez: Carlos verður hjá Manchester City fram á sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez er ekkert á förum frá Manchester City í janúarglugganum ef marka má nýtt viðtal við umboðsmanninn hans Kia Joorabchian. City hefur verið í viðræðum við Inter Milan, AC Milan og Paris St Germain en ekkert þeirra er tilbúið að borga þær 25 milljónir punda sem ensku bikarmeistararnir vilja fá fyrir Argentínumanninn.

„Við höfum verið í samningarviðræðum við þrjú stór félög en ég held að ekkert þeirra er tilbúið að borga það sem Manchester City vill fá fyrir hann," sagði Kia Joorabchian við Talksport-útvarpsstöðina í Bretlandi.

Carlos Tevez hefur ekkert æft né spilað með Manchester City liðinu frá því í september eða síðan að hann neitaði að hita upp fyrir Meistaradeildarleik á móti Bayern München.

„Carlos verður hjá Manchester City fram á sumar. Manchester City vill selja hann en fær bara ekki nógu góð tilboð í hann," sagði Joorabchian í umræddu viðtali.

Tevez lék sinn síðasta leik með Manchester City á móti Birmingham í enska deildarbikarnum 21. september síðastliðinn. Hann spilaði með City í Meistaradeildinni og það spillir fyrir áhuga marga af stærstu liðunum sem hefðu viljað notað hann í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

„Margir markaðir munu opnast í sumar því öll stærstu félögin verða þá á höttunum eftir leikmönnum sem geta spilað í Meistaradeildinni. Carlos Tevez má ekki spila í Meistaradeildinni í ár og það er stór tálmi í öllum samningarviðræðum í dag. Félög þurfa að eyða miklum pening í að kaupa hann og borga honum laun en geta síðan ekki notað hann í Meistaradeildinni," sagði Joorabchian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×