Enski boltinn

Terry missir líklega aftur fyrirliðabandið skömmu fyrir stórmót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stjórn enska knattspyrnusambandins er nú að fara yfir það hvort að John Terry fái að halda fyrirliðabandi enska landsliðsins. Terry hefur verið ásakaður um kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand hjá QPR og framundan eru réttarhöld yfir Terry eftir Evrópumótið í sumar.

John Terry hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og heimildarmenn úr hans röðum segja að hann muni ekki afsala sér fyrirliðabandinu vegna þessa máls. Upptaka af Terry á Loftus Road virðist sýna hann öskra ljót orð í átt að Ferdinand en Terry heldur því fram að þar hafi hann aðeins verið að neita því að hafa sagt þessi orð við Ferdinand.

Missi Terry fyrirliðabandið verður það í annað skiptið sem hann missir það skömmu fyrir stórmót. Fabio Capello tók af honum fyrirliðabandið fyrir HM í Suður-Afríku 2010 eftir að up komst um framhjáhald Terry. Rio Ferdinand, bróðir Antons, tók þá við fyrirliðabandinu en Steven Gerrard var svo fyrirliði á HM eftir að Rio meiddist.

Þetta mál mun liggja yfir Terry eins og skugginn alla þá fimm mánuði sem eru fram að Evrópumótinu og það er erfitt að sjá Terry takast að halda fyrirliðabandinu allan þennan tíma á meðan breskir fjölmiðlar munu fara hamförum í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×