Fótbolti

Hodgson: Stoltur af frammistöðu strákanna

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, var mjög ánægður að hafa fengið stig gegn sterku liði Frakklands í fyrsta leik Englands á EM.

"Við lékum vel gegn heimsklassaliði. Þetta er lið sem fer ekki á taugum á síðasta þriðjungi vallarins og við urðum því að vera mjög agaðir. Ég er því ánægður með úrslitin," sagði Hodgson.

"Við héldum Frökkunum vel í skefjum og það kom ekki oft fyrir að ég væri stressaður. Ef við hefðum aðeins verið heppnari með sendingar okkar þá hefðum við getað skorað annað mark.

"Ég var mjög ánægður með hinn unga Oxlade-Chamberlain sem var hættulegur. Hann hlýtur að vera líka sáttur en þetta var fín liðsframmistaða hjá okkur. Það lögðu allir sitt af mörkum.

"Frakkar eru sigurstranglegastir í þessum riðli og margir spá þeim sigri í mótinu. Við berum líka virðingu fyrir Svíum og Úkraínumönnum. Ég er stoltur af frammistöðu strákanna. Það gaf enginn eftir og átti lélegan leik.

"Við þurfum aðeins að bæta stungusendingar og fyrirgjafir. Við vorum stundum að krossa of snemma og annað. Þetta var samt jákvætt fyrir framhaldið og ljóst að allir eru til í að leggja sig fram," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×