Fótbolti

Neville: Menn mega ekki láta Balotelli trufla einbeitinguna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gary Neville ásamt Roy Hodgson
Gary Neville ásamt Roy Hodgson Mynd / Getty Images
Gary Neville, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins, hefur rætt við leikmenn enska landsliðsins og ráðlagt þeim að forðast samskipti við Mario Balotelli, leikmann Ítalíu, þegar liðin mætast í 8-liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu síðar í dag.

Neville er partur af þjálfarateymi Englands og hefur gríðarlega mikla reynslu frá stórmótum. Þessi fyrrum fyrirliðið landsliðsins telur að Balotelli geti haft áhrif á einbeitingu leikmanna Englands og menn eigi alls ekki að reyna espa Ítalann upp til að koma honum af velli með rautt spjald.

Neville telur að það geti snúist í höndunum á Englendingum og menn eigi hættu á að fá refsingar fyrir slíkt athæfi.

„Ef menn fara í leikinn með hugann við Balotelli og með það markmið að koma leikmanninum útaf með rautt spjald, mun það líklega hafa öfug áhrif," sagði Neville í viðtali við enska fjölmiðla.

„Þetta er það mikilvægur leikur að menn verða að vera með fulla einbeitingu og menn eins Balotelli mega ekki fara inn í hausinn á okkar mönnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×