Erlent

Forsetinn gefur sjálfum sér hæstu einkunn

Mohammed Morsi veifar til mannfjöldans meðan honum er ekið í forsetabifreiðinni inn á leikvang í Kaíró.nordicphotos/AFP
Mohammed Morsi veifar til mannfjöldans meðan honum er ekið í forsetabifreiðinni inn á leikvang í Kaíró.nordicphotos/AFP
„Ég bý enn í leiguíbúð,“ sagði Mohammed Morsi Egyptalandsforseti í ræðu um helgina, þar sem hann gaf sjálfum sér hæstu einkunn fyrir frammistöðuna fyrstu hundrað dagana í embætti.

„Ef einhver sér mig aka nýrri bifreið, sem ekki er í ríkiseigu, þá á hann að tilkynna það,“ bætti hann við.

Morsi var kosinn forseti Egyptalands síðastliðið vor, sá fyrsti sem kosinn er til þess embættis í frjálsum kosningum þar í landi. Forvera hans, Hosni Mubarak, var steypt af stóli í byltingu almennings eftir þriggja áratuga valdaferil.

Áður en Morsi tók við embætti gaf hann ákveðin loforð um nokkur atriði sem hann ætlaði sér að afreka strax á fyrstu hundrað dögunum í embætti. Meðal annars lofaði hann því að bæta úr eldsneytisskorti í landinu, betrumbæta niðurgreitt brauð, hafa hemil á glæpaöldunni, hreinsa ruslið af götunum og draga úr umferðarteppum.

Morsi hefur látið mæla árangurinn og hélt því fram að hann hafi náð áttatíu prósenta árangri í brauðmálinu, sextíu prósentum í umferðarmálunum, fjörutíu í sorphirðu, 95 prósentum í eldsneytismálum og sjötíu prósentum í öryggismálum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×