Erlent

Sjúklingar deyja úr hungri og þorsta á breskum sjúkrahúsum

Fjöldi sjúklinga á breskum sjúkrahúsum deyr úr hungri og þorsta á hverju ári. Nordicphotos/Getty
Fjöldi sjúklinga á breskum sjúkrahúsum deyr úr hungri og þorsta á hverju ári. Nordicphotos/Getty
Fjörutíu og þrír sjúklingar á breskum sjúkrahúsum dóu úr hungri í fyrra og hundrað og ellefu dóu úr þorsta. Að auki kemur fram í læknaskýrslum að 588 sjúklingar hafi þjáðst af alvarlegum vökvaskorti og 287 hafi verið alvarlega vannærðir þegar þeir dóu. Breska blaðið The Telegraph greindi frá þessu á laugardag og hefur eftir Katherine Murphy, framkvæmdastjóra samtaka sjúklinga í Bretlandi, að þessar tölur séu nöturlegur og skammarlegur vitnisburður um ástandið í Bretlandi á 21. öldinni.

Í skýrslum bresku hagstofunnar kemur einnig fram að 78 sjúklingar á sjúkrahúsum og 39 sjúklingar í heimahjúkrun hafi dáið af völdum legusára og auk þess hafi 650 sjúklingar haft slæm legusár þegar þeir dóu, án þess að dánarorsökin verði rakin til þeirra.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur látið málið til sín taka og sendi fyrr á þessu ári frá sér tilskipun þar sem hjúkrunarfólki var gert að fylgjast með sjúklingum á klukkustundarfresti til að koma í veg fyrir að þeir væru svangir, þyrstir eða með verki. Heilbrigðiseftirlitið breska hefur einnig hafið rannsókn á málinu og komist að því að á helmingi þeirra 100 sjúkrahúsa sem rannsóknin náði til hafi ummönnun aldraðra verið stórlega ábótavant.- fsb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×