Erlent

Lætur sig falla úr 36 kílómetra hæð

Felix Baumgartner
Felix Baumgartner
Fallhlífarstökkvarinn Felix Baumgartner hefur árum saman unnið að undirbúningi þess að slá öll met í þeirri grein. Á morgun verður svo komið að stóra stökkinu. Hann ætlar að fara með loftbelg upp í að minnsta kosti 36 kílómetra hæð og láta sig falla niður til jarðar. Hann reiknar með að fallið taki rúmlega fimm og hálfa mínútu áður en fallhlíf opnast þegar hann verður kominn niður í eins og hálfs kílómetra hæð.

Hætturnar eru margar. Fyrir utan að hann gæti hálsbrotnað eða fótbrotnað við lendingu, þá er það lofthæðin sem gæti farið verst með líkamann: Vegna þess hve loftþrýstingur er lágur gæti blóðið farið að ?sjóða?, eins og það er kallað þegar lífshættulegar loftbólur taka að myndast í blóðinu. Æðarnar í heilanum gætu sprungið, og það gæti farið að blæða úr augunum.

Læknar, verkfræðingar og aðrir aðstoðarmenn hans hafa hins vegar farið yfir öll atriði og telja nánast öruggt að hann eigi að komast heilu og höldnu til jarðar. Ýmislegt gæti þó farið úrskeiðis. Búningurinn gæti til dæmis rifnað og svo gæti hylkið slitnað frá loftbelgnum áður en nægilegri hæð er náð.

?Það eru mörg óvissuatriði,? viðurkennir Baumgartner, ?en við erum með lausnir sem hjálpa mér að lifa þetta af?. Baumgartner er 43 ára Austurríkismaður sem undanfarinn aldarfjórðung hefur stokkið í fallhlífum ofan af háhýsum og klettum víðs vegar um heim. ?Eftir þetta er ég hættur,? segir hann ákveðinn. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×