Lífið

Júlíus Kemp kveikir líf í Korteri

Kvikmyndafélag Íslands, framleiðslufyrirtæki þeirra Júlíusar Kemp og Ingvars Þórðarssonar, keypti réttinn að bókinni Korter eftir Sólveigu Jónsdóttir.
Kvikmyndafélag Íslands, framleiðslufyrirtæki þeirra Júlíusar Kemp og Ingvars Þórðarssonar, keypti réttinn að bókinni Korter eftir Sólveigu Jónsdóttir. Fréttablaðið/Stefán
„Ég taldi einfaldlega að sagan væri gott efni í kvikmynd,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Júlíus Kemp. Framleiðslufyrirtæki hans og Ingvars Þórðarsonar, Kvikmyndafélag Íslands, hefur fest kaup á kvikmyndaréttinum að skáldsögunni Korter eftir Sólveigu Jónsdóttur.

Fjögur íslensk kvikmyndafyrirtæki kepptu um gera kvikmynd eftir skáldsögunni og valdi höfundurinn þá félaga hjá Kvikmyndafélagi Íslands. „Við vorum á sömu blaðsíðu varðandi útfærslu og hvernig umgjörðin ætti að vera. Ég treysti mér ekki til að sleppa hendinni af barninu mínu alveg strax,“ segir Sólveig, sem mun verða þeim félögum innan handar við að gefa sögunni nýtt líf á hvíta tjaldinu.

Bókin, sem er frumraun Sólveigar, kom út fyrr á árinu og vakti nokkra athygli. Hún fléttar saman sögur fjögurra stúlkna í Reykjavík, ástir þeirra og raunir.

Júlíus staðfestir að þeir Ingvar ætli að halda sig eins nálægt söguþræði bókarinnar og hægt er. Ferlið er enn á byrjunarstigi og enn óákveðið hver leikstýrir myndinni og hverjir leika í henni. Sólveig segist ekki sjá neinar ákveðnar leikkonur fyrir sér í aðalhlutverkunum en að helst skipti málið að þær séu á aldur við söguhetjurnar sjálfar.

„Nú fer af stað ferli sem getur tekið óútreiknanlegan tíma. Handritavinna, fjármögnun og loks að búa til sjálfa myndina. Ef vel gengur verður hún komin á hvíta tjaldið á næstu fimm árum,“ segir Júlíus að lokum. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.