Innlent

Best ef ríkisstjórnin situr áfram

Jóhanna segir valkostina skýra í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn bjóði upp á óhefta frjálshyggju en Samfylking og Vinstri græn upp á félagshyggju og jöfnuð. Framsóknarflokkurinn ætti að stilla sér upp við hlið ríkisstjórnarinnar.
Jóhanna segir valkostina skýra í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn bjóði upp á óhefta frjálshyggju en Samfylking og Vinstri græn upp á félagshyggju og jöfnuð. Framsóknarflokkurinn ætti að stilla sér upp við hlið ríkisstjórnarinnar. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist ekki mega hugsa til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda með sína óheftu frjálshyggju eftir næstu kosningar. Hún vill að núverandi ríkisstjórn sitji áfram og hvetur Framsóknarflokkinn til að standa

Kosningar verða í vor og ljóst er að aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) verða þá ekki til lykta leiddar. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir ESB verða kosningamál. Samfylkingin sé sannfærð um að hagsmunum Íslendinga sé best borgið innan sambandsins og með evruna sem gjaldmiðil.

„Ég vona að þegar kemur að kosningum munum við hafa góða yfirsýn yfir þau mál sem eru á borðinu í aðildarviðræðunum í erfiðustu köflunum; landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum. Mín sýn á aðildina og upptöku evrunnar er mjög skýr.

Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að staðan í Evrópu er mjög erfið núna. Hún snýr aðallega að nokkrum löndum þar sem skuldavandi er mikill og ríkisfjármál hafa verið í ólestri og hefur haft áhrif á öll aðildarríkin. Ég hef hins vegar fulla trú á að sambandið geti unnið sig út úr þessum erfiðleikum og þegar kemur að því að taka afstöðu til aðildar verði staðan allt önnur.“

Jóhanna segir skýrslu Seðlabankans sýna ótvírætt að einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé ekki valkostur. Eftir standi upptaka evru eða áframhaldandi króna í einhvers konar höftum.

„Ég tel reyndar að hvort sem við tökum upp evru eða ekki þurfum við að setja ákveðinn ramma utan um krónuna og styrkja hér efnahagsstjórn. Við munum þurfa að búa við krónuna í einhver ár, þó við gerðumst aðilar að ESB, þar sem upptaka evru tekur einhvern tíma.

Skýrslan sýnir ótvírætt að evran er okkur hagstæð. Þjóðartekjur gætu aukist um tugi milljarða, allt að 160 milljarða, og viðskiptakostnaður myndi lækka um 5 til 15 milljarða króna og vextir lækka, sem væri búhnykkur fyrir heimilin og fyrirtækin. Þá mundi kostnaður við gjaldeyrisvaraforðann hverfa og aukinn stöðugleiki fást í efnahagslífið. Ég vona bara að þessi skýrsla, sem og sú sem væntanleg er frá fulltrúum allra flokka, geti leitt okkur inn í málefnalega umræðu um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar.“

Viðræðuslit ekki valkostur

En er það ekki erfið staða fyrir Samfylkinguna að fara í kosningar með ófullgerða samninga?

„Málið hefur náttúrulega skýrst heilmikið og búið er að opna marga kafla. Ég treysti því líka, sem Stefan Füle hefur sagt, að allt sem máli skipti í þessum efni verði uppi á borðum um áramótin. Það er hins vegar óþægilegt að ekki hafi verið hægt að opna kaflann um sjávarútveginn því fyrir mörgum mun niðurstaðan úr honum ráða úrslitum varðandi afstöðu til aðildar.“

Jóhanna segir þjóðina eiga heimtingu á að greiða atkvæði um fullkláraðan samning og að Samfylkingin leggi gríðarlega áherslu á það.

„Ég held að það sé alveg ljóst að Samfylkingin mun aldrei sætta sig við að starfa með þeim sem krefjast þess að viðræðum verði hætt með einhverjum hætti áður en fyrir liggur samningur sem þjóðin fær að greiða atkvæði um. Ég tel að þjóðin eigi heimtingu á að greiða atkvæði um þá niðurstöðu sem fæst og að það sé vanvirðing við fólkið í landinu að stjórnmálamennirnir taki það vald í sínar hendur. Við munum aldrei sætta okkur við að það verði niðurstaðan.“

Áframhald samstarfsins

En hvernig finnst Jóhönnu ríkisstjórninni hafa tekist til, vill hún halda samstarfinu við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð? „Ég tel að þetta stjórnarsamstarf, sem er fyrsta meirihlutastjórn félagshyggjufólks og jafnaðarmanna, hafi verið mjög árangursríkt og farsælt og þess verði minnst í sögunni fyrir það. Við höfum endurreist efnahagslífið eftir þetta skelfilega hrun, á tiltölulega stuttum tíma, ásamt því að koma í höfn mjög stórum umbótamálum á mörgum sviðum, svo sem hvað varðar mannréttindi og félagslegar umbætur.

Að sjálfsögðu tel ég því að það sé farsælast fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnuna, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð að flokkarnir vinni áfram saman eftir kosningar.

Ég vil mjög gjarnan sjá það gerast og mér finnst það óbærileg tilhugsun að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda eftir kosningar, hugsanlega með Framsóknarflokknum. Reyndar trúi ég að það muni ekki gerast.“

Óheft frjálshyggja

Jóhanna segist hugsi yfir því hve Sjálfstæðisflokkurinn mælist hátt í könnunum. Ískyggilegt sé að horfa upp á umbúðalaust og vaxandi frjálshyggjutrúboð flokksins, sem fyrrum varaformaður hans líkti við Teboðshreyfinguna í Bandaríkjunum, og spyr hvort menn séu búnir að gleyma að einmitt sú frjálshyggja hafi leitt þjóðina í þær hremmingar sem raun ber vitni.

„Hvað á ég við? Jú, þeir telja að ekki sé skorið nægilega mikið niður í ríkisútgjöldum. Hvar ætla þeir að skera meira niður? Ætla þeir að hætta við áform ríkisstjórnarinnar um auknar barnabætur og eflingu Fæðingarorlofssjóðs? Ætla þeir að skera niður bætur til lífeyrisþega eða atvinnulausra eða draga úr þjónustu á sjúkrahúsum og í skólum? Þeir tala um að lækka skatta á auðmenn og hina tekjuhærri. Hvernig ætla þeir að gera það og á hverju mun það bitna? Þeir vilja afnema veiðigjaldið og eru mjög áfram um stóriðjueinstefnu.

Ég spyr: Hvaða afleiðingar mun þetta hafa, afnám veiðigjalds og lækkun skatta? Þýðir það að hætta þarf við Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng, nýjan Herjólf, Landeyjahöfn, nýtt fangelsi, tvöföldun framlaga í vísinda- og tæknisjóð, eflingu Græna hagkerfisins og sóknaráætlanir landshluta? Þetta byggir allt á fjárfestingaráætlun sem við fáum að hluta til með fjármagni úr veiðigjaldinu. Síðan segjast þeir vilja hætta við umsókn um aðild að ESB og útiloka þar með upptöku evru með öllum þeim kostum fyrir samfélagið.

Hvað er þá orðið eftir? Ég sé ekki að það sé neitt annað en óheft frjálshyggja. Við erum komin inn að beini í niðurskurði og komumst ekki lengra. Við erum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, sem er stórkostlegt, og því að breyta vöxtum í velferð með því að minnka vaxtakostnað.“

Skýrir valkostir

Jóhanna segir fjárlögin fyrir 2013 marka tímamót. Í þeim sjáist móta fyrir því samfélagi sem jafnaðar- og félagshyggjufólk vilji byggja. Svigrúm upp á tugi milljarða sé nýtt til hækkunar barna- og vaxtabóta, breytingar verði á húsnæðisbótum og almannatryggingakerfið einfaldað og gert skilvirkara.

„Þarna erum við að sýna það þjóðfélag félagshyggju og jafnaðar sem við viljum sjá og fólk sér það svart á hvítu hvað við munum gera komumst við í ríkisstjórn.

Mér finnst að á umliðnum mánuðum hafi valkostir fólks í næstu kosningum skýrst mjög. Annars vegar eru það sjálfstæðismenn, sem hafa grímulaust sýnt sitt rétta frjálshyggjuandlit eins og ég hef lýst og hins vegar við jafnaðarmenn og Vinstri græn sem höfum með verkum okkar sýnt hvað við viljum gera. Tekjujöfnuður hefur stóraukist, konur komist til aukinna áhrifa og aldrei hefur verið lögð jafn mikil áhersla á umhverfismál og hjá núverandi ríkisstjórn.

Síðan virðast framsóknarmenn, sem betur fer, vera að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum. Ég held að þeir hafi tapað á því að standa svo þétt með þeim og það sést á því að þeir eru fastir í ákveðinni prósentutölu í skoðanakönnunum.“

Jóhanna segir Framsóknarflokkinn hafa barist af ábyrgð með minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir breytingum á stjórnarskrá, en Sjálfstæðismenn stöðvað það mál.

„Ég held að framsóknarmenn eigi að sýna að þeir vilji í raun og sann skilja sig frá sjálfstæðismönnum með því að stilla sér meira upp við okkar hlið, til dæmis að því er varðar breytingar á stjórnarskrá. Það tel ég vera stóra málið sem þarf að ná saman um á kjörtímabilinu.

Ég held líka að þeir hafi fært sig allt of nálægt íhaldinu að því er varðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ég fagna því að svo virðist sem breytingar séu að verða á afstöðu framsóknarmanna í ýmsum málum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.