Innlent

Vitni fá nafnleynd í manndrápsmáli

Stígur Helgason skrifar
Börkur hlaut nýverið dóm fyrir að hrækja á dómara. Hann hefur áfrýjað honum til Hæstaréttar.
Börkur hlaut nýverið dóm fyrir að hrækja á dómara. Hann hefur áfrýjað honum til Hæstaréttar. Vísir/Anton

Dómari við Héraðsdóm Suðurlands féllst í gær á þá kröfu sýslumannsins á Selfossi að leyfa vitnum í máli gegn ofbeldismönnunum Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni að njóta nafnleyndar, þannig að sakborningarnir og verjendur þeirra muni aldrei fá að vita hver þau eru.



Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um hversu mörg vitni er um að ræða, en þau eru þó fleiri en eitt. Afar sjaldgæft er að úrræðinu sé beitt og forsenda þess er að dómari telji vitnin ella í hættu og að brýna nauðsyn beri til að þau gefi skýrslu með þessum hætti.

Annþór og Börkur sæta ákæru fyrir hrottafengin ofbeldisverk, til viðbótar við hin málin.

Annþór og Börkur eru grunaðir um að hafa veitt samfanga sínum, Sigurði Hólm Sigurðssyni, banvæna áverka í klefa hans á Litla-Hrauni í maí síðastliðnum. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í kjölfarið og sátu um skeið í einangrun, en hafa nú hafið afplánun eldri dóma. Endanlegar niðurstöður úr krufningu liggja enn ekki fyrir og fyrr verður ekki hægt að ljúka rannsókninni.

Tvímenningarnir voru viðstaddur þinghaldið í gær eins og þeir hafa rétt á. Þeir hafa raunar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, sótt mjög fast að vera viðstaddir öll þinghöld í málinu, til dæmis um dómkvaðningu matsmanna – svo sem lækna og réttarmeinafræðinga, og aðgang lögreglu að gögnum.

Þeir voru leiddir fyrir dóminn í járnum og dómari hafnaði kröfu þeirra um að þeir yrðu leystir úr þeim. Verjendur mótmæltu jafnframt kröfunni um nafnleynd vitnanna og hyggjast kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×