Fótbolti

Schweinsteiger: Ökklinn er að trufla mig

Schweinsteiger getur ekki beitt sér að fullu.	nordicphotos/getty
Schweinsteiger getur ekki beitt sér að fullu. nordicphotos/getty
Þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger segist vera í erfiðleikum með ökklann á sér og þess vegna geti hann ekki spilað eins og hann eigi að sér. Hann segist því þurfa að hvíla sig vel eftir EM.

Schweinsteiger var talsvert mikið meiddur í vetur og stóð tæpt að hann gæti farið með þýska liðinu á EM.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er ökklinn að trufla mig talsvert mikið. Þessi meiðsli hafa verið að trufla mig síðan í febrúar og ég hef ekki fengið tíma til þess að jafna mig almennilega. Vonandi eigum við tvo leiki eftir og í kjölfarið verð ég að fá að hvíla hann betur," sagði harðjaxlinn frá Bayern München.

„Ég gat aðeins mætt á lokaæfinguna fyrir leikinn gegn Grikkjum. Ég klúðraði svo nokkrum einföldum sendingum í leiknum sem ég geri aldrei. Ég var nokkuð sáttur við minn leik en leikmaður eins og ég má aldrei klúðra svona einföldum sendingum."

Þar sem Schweini náði ekki að beita sér af fullu afli þurfti Sami Khedira að stíga upp og hann gerði það með stæl.

„Hann var virkilega góður og burtséð frá því hvað þið skrifið er engin öfund í gangi. Gengi liðsins skiptir öllu máli hjá okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×