Fótbolti

Rooney má loksins spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rooney og Hodgson fyrir æfingu enska liðsins.
Rooney og Hodgson fyrir æfingu enska liðsins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney hefur þurft að dúsa uppi í stúku í tveimur fyrstu leikjum Englendinga á EM en í kvöld fær hann loksins að klæðast tíunni og hjálpa enska liðinu til þess að komast í átta liða úrslitin. Rooney viðurkennir að það hafi verið erfitt að horfa á fyrstu tvo leikina.

„Það er miklu erfiðara að horfa á leiki en spila þá því þú getur ekkert gert uppi í stúku," sagði Wayne Rooney.

Rooney kemur væntanlega beint inn í byrjunarliðið fyrir Úkraínuleikinn en enska liðinu nægir þar jafntefli. Andy Carroll og Danny Welbeck skoruðu báðir í sigrinum á Svíum og annar þeirra þarf því að víkja.

Pressan verður á Rooney að skila meiru en á síðustu stórmótum enda þá með fleiri rauð spjöld en mörk.

Það er hins vegar mörgum í fersku minni þegar hann 18 ára gamall skoraði 4 mörk í fjórum leikjum á sínu fyrsta og eina Evrópumóti í Portúgal árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×