Innlent

Erfitt að tæma ósamþykkta brunahúsið

Sluppu vel Fjórir íbúar hússins við Vesturvör voru fluttir á sjúkrahús eftir að eldur kom upp í fyrrinótt.
Sluppu vel Fjórir íbúar hússins við Vesturvör voru fluttir á sjúkrahús eftir að eldur kom upp í fyrrinótt.
„Við tæmum yfirleitt svona hús en þarna er leigusamningur í gildi þannig að við getum í rauninni ekki tæmt það,“ segir Magnús Steinþór Pálmarsson, talsmaður eignaumsýslufélagsins Dróma, um ósamþykkt íbúðarhúsnæði að Vesturvör 27 í Kópavogi, þar sem eldur kom upp í fyrrinótt.

Tilkynnt var um eld í húsinu á þriðja tímanum í fyrrinótt og gekk greiðlega að slökkva hann. Engu að síður voru fjórir fluttir á slysadeild til skoðunar. Alls eru fjörutíu manns skráðir til heimilis í húsaþyrpingunni að Vesturvör 27.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í fjölmiðlum í gær að til greina hefði komið að loka húsinu fyrir nokkrum misserum en það hefði þó ekki þótt nógu hættulegt til að orðið hafi af því.

Magnús segir að erfitt geti verið að losa húsnæði þegar fólk er með leigusamning. Samningarnir séu þó að renna út. „Okkar stefna er að tæma allt svona húsnæði, sem telst ekki vera mannabústaðir. Við stundum ekki að leigja út iðnaðarhúsnæði undir heimilishald,“ segir hann. Engu að síður geti tekið tíma að rýma húsnæðið ef leigjendurnir fara ekki. Þá þurfi útburð og hann geti tekið marga mánuði.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir stjórnvöld lengi hafa glímt við þau vandamál sem fylgja ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Þau séu hins vegar margflókin og torleyst og tengist mörgum málaflokkum. Þá geti slíkt húsnæði verið mjög mishættulegt. Almennt hafi það verið stefnan að henda fólki ekki út á gaddinn. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×