Innlent

Náttúran á undir högg að sækja vegna ágangs manna

Mannvirki og mannaferðir hafa áhrif á rúmlega 80 prósent friðlandsins umhverfis Gullfoss. Fleiri friðlönd og vinsælir ferðamannastaðir eiga undir högg að sækja vegna þessa.fréttablaðið/pjetur
Mannvirki og mannaferðir hafa áhrif á rúmlega 80 prósent friðlandsins umhverfis Gullfoss. Fleiri friðlönd og vinsælir ferðamannastaðir eiga undir högg að sækja vegna þessa.fréttablaðið/pjetur
Landnýting á Suðurlandi er miklu meiri en í öðrum landshlutum á Íslandi. Þetta kemur fram í meistaraverkefni Elke Wald sem hún vann við Háskóla Íslands og kynnt var í síðustu viku.

Landsvæðið sem rannsakað var sérstaklega er láglendi Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Kom í ljós að þar er ágangur manna á landið mestur. Rannsóknartímabilið sem verkefnið spannar eru árin 1900 til 2010, tímabil róttækustu breytinga íslensks þjóðfélags. Niðurstöðurnar sýna að áhrifin eru meiri en gert var ráð fyrir á svæðisbundin lífríki.

Í rannsókninni voru skoðuð áhrif vegagerðar, mannabústaða, ræktunarlands og framræslu votlendis. Þegar flokkarnir eru teknir saman kemur í ljós að áhrifin hafa sextíufaldast á rannsóknartímabilinu.

Áhrif landrasks manna gætir einnig í friðlöndum innan rannsóknarsvæðisins. Að meðaltali 20 prósent af friðlandi innan svæðisins verða fyrir áhrifum mannvirkja. Vegir eru þar yfirgnæfandi þáttur og bera 83 prósent áhrifanna. Áhrif landrasks koma verst við friðlandið umhverfis Gullfoss; rúmlega 80 prósent svæðisins verða fyrir áhrifum. Innan friðlandana eru helstu ferðamannastaðir á Íslandi.

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, lýsti nýlega áhyggjum sínum af auknum ferðamannastraumi til landsins og sagði tímabært að stefnumótendur spyrðu sig hvort við værum að ganga nærri þeim gæðum sem ferðamannaiðnaðurinn er byggður á. Rúmlega helmingur þeirra ferðamanna sem sækja landið heimsækir sömu staðina.

Lengd vegakerfisins miðað við höfðatölu er langmest á Íslandi. Á rannsóknarsvæðinu er lengd vegakerfisins miðað við íbúatölu rúmlega tvöfalt meiri en á landinu öllu.

Taka verður mið af því að áhrif vega og bílaumferðar á náttúruna ná langt út fyrir landsvæðið sem vegir leggja undir sig. Í verkefninu eru jaðaráhrifin talin ógna vatnsbúskap, veðurfari, raska jafnvægi vistkerfa og hafa í för með sér loftmengun.

Samanborið við önnur Evrópulönd og Bandaríkin sleppir Ísland tiltölulega miklu af gróðurhúsaloftegundum út í andrúmsloftið. Íslendingar menga mest allra vegna málmframleiðslu, eru í þriðja sæti vegna mengunar í landbúnaði og í fjórða sæti vegna umferðarmengunar.

Á árunum 2000 til 2006 hefur flatarmál manngerðs yfirborðs stækkað í öllum löndunum sem miðað er við. Hér er fjallað um vegi og annað sem þeim fylgja, þéttbýlissvæði, iðnaðar- og útiverusvæði. Meðalstækkun er undir 10 prósentum en á Íslandi er hún 19,7 prósent og 34,6 prósent á Suðurlandsundirlendi. Annars staðar á Norðurlöndum er stækkunin aðeins þrjú prósent.

Elke Wald segir skýringar þessara auknu áhrifa landnýtingar ekki síst vera þjóðhagslegar. Fólksfjölgun og aukin þéttbýlismyndun krefst frekari matvæla-, rafmagns- og atvinnusköpunar.

Landsvæði undir landbúnað og framleiðslu óx tuttugufalt á rannsóknarsvæðinu á tímabilinu sem rannsakað var. Það er í svipuðu hlutfalli við fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili.

Suðurlandsundirlendið var valið sérstaklega til rannsóknar þó það sé aðeins 15 prósent af landi 400 metrum yfir sjávarmáli, því það hefur 42,7 prósent túna og 43,7 prósent allra sumarhúsa á landinu.

birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×