Innlent

Íslandsbanki óttast áhrif veiðigjaldsins

Íslandsbanki birti kolsvarta skýrslu í gær um álit sitt á áhrifum frumvarpa um stjórn fiskveiða og veiðigjald.
Íslandsbanki birti kolsvarta skýrslu í gær um álit sitt á áhrifum frumvarpa um stjórn fiskveiða og veiðigjald. fréttablaðið/óskar
Boðaðar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða og sérstakt veiðigjald munu hafa veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf, er mat Íslandsbanka. Afkoma fyrirtækja og sjávarútvegs í heild er undir. Eins verða áhrifin á efnahag bankanna neikvæð.

Það er mat Íslandsbanka að frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjald hafi í för með sér veruleg áhrif á rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarútveginn í heild. Líklegt telur bankinn að fjárfestingar í greininni dragist verulega saman. Þá er mat bankans einnig að breytingarnar hafi áhrif á íslenskt efnahagslíf í heild sinni og það eigi eftir að skila sér í verri efnahag viðskiptabankanna þriggja.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti á frumvörpunum tveim sem bankinn sendi frá sér síðdegis í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, kynnti frumvörpin 26. mars og sagði að valin hefði verið sú leið að hafa tvískipt veiðigjald; annars vegar grunngjald sem allir greiddu, og hins vegar tekjutengt gjald eða auðlindarentu, sem reiknuð væri eftir vissum forsendum.

Í áliti Íslandsbanka segir að forsendurnar fyrir auðlindarentunni, eða sérstaka veiðigjaldinu, standist ekki sökum þess að ekki sé tekið tillit til réttrar skuldsetningar greinarinnar í útreikningi stofnsins. Þessi skekkja veldur því, að mati bankans, að lítill hagnaður verður eftir fyrir fyrirtækin sem jafnvel muni knésetja sum þeirra.

Breytingarnar telur bankinn hafa mikil áhrif á sinn rekstur og hinna viðskiptabankanna. Það aftur hafi neikvæð áhrif á fjármögnunarleiðir sjávarútvegsfyrirtækjanna. Því megi búast við því að fjárfestingar dragist saman nái frumvörpin fram að ganga. Birtingarmyndin verður eldri skipafloti og framþróun verður lítil sem engin. Við þetta myndast vítahringur þar sem fyrirtækin hafa síður getu til að standa við núverandi og væntanlegar skuldbindingar gagnvart sínum lánardrottnum.

Má geta þess að útlán til sjávarútvegsfyrirtækja vega misþungt í efnahagsreikningi stóru viðskiptabankanna þriggja. Sjávarútvegurinn er um 12% af útlánum Íslandsbanka, 23% hjá Landsbankanum og um 11% hjá Arion banka (bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar).

Íslandsbanki telur flækjustig laganna vera „ávísun á þjóðhagslega sóun“ og að aukin pólitísk aðkoma að úthlutun aflahlutdeilda skref til fortíðar.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×