Fótbolti

Ferðuðust með rútu til Þýskalands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sara Björk skoraði eina markið í fyrri leiknum og verður í framlínunni aftur í dag,nordic photos/getty images
Sara Björk skoraði eina markið í fyrri leiknum og verður í framlínunni aftur í dag,nordic photos/getty images
Íslendingaliðið Malmö mætir þýska liðinu Frankfurt í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í dag. Þetta er seinni leikur liðanna en Malmö vann fyrri leikinn 1-0 með marki Söru Bjarkar Gunnarsdóttur. Þóra B. Helgadóttir átti einnig mjög góðan leik í marki Malmö og þær báðar verða báðar í byrjunarliði Malmö í dag.

„Við komum til Þýskalands á sunnudag. Það tók líka ansi langan tíma enda fórum við með rútu. Ekki alveg það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það var hrikalega leiðinlegt enda tók ferðin um tólf tíma," sagði Sara Björk við Fréttablaðið í gær en það fór ágætlega um liðið samt í ferðalaginu enda er Malmö með fína rútu fyrir liðið.

Lið Malmö spilar sína leiki á gervigrasi en í leiknum í dag fá þær að leika á grasi.

„Ég er mjög fegin að geta komist á gras. Við æfum nefnilega líka á gervigrasi alla daga. Þetta verður þægileg tilbreyting."

Sara segir að það sé virkilega góð stemning í liðinu fyrir leikinn enda ætli það sér að komast áfram í keppninni og sýna að Malmö sé eitt af fjórum bestu liðum Evrópu í dag.

„Það var mikilvægt fyrir okkur að fá að ekki á okkur mark á heimavelli. Ef við náum að skora þá erum við í sterkri stöðu. Það kemur ekkert annað til greina en að klára þennan leik og koma okkur í undanúrslit."

Sara Björk er vön því að spila á miðjunni hjá landsliðinu en í liði Malmö leikur hún sem framherji.

„Mér gengur vel frammi og á meðan svo er þá þarf ekkert að breyta," sagði Sara en er hún vanmetin markaskorari? „Ég veit það ekki. Mér hefur oft gengið líka vel að skora þegar ég spila á miðjunni. Ég er samt óhefðbundinn framherji að því leyti að ég vinn mikið til baka. Ég er lítið fyrir að hanga bara í fremstu víglínu."

Það hafa undanfarið borist fréttir af því frá Svíþjóð að Malmö standi mjög illa fjárhagslega og hætta er á að það fari hreinlega í þrot fari svo að borgaryfirvöld komi ekki til aðstoðar.

„Það er ekkert að trufla mig mikið. Ég og liðið erum að hugsa um leikinn sem er fram undan," sagði Sara en félagið hefur þrátt fyrir vandræðin náð að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart leikmönnum.

„Það er ekkert sagt mikið við okkur en ég nenni ekki að pæla í þessu. Ég pæli bara í að æfa og spila vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×