Enski boltinn

Tevez verður líklega í hópnum hjá City

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tevez hefur verið að æfa á fullu og er tilbúinn að snúa aftur á völlinn.nordic photos/getty images
Tevez hefur verið að æfa á fullu og er tilbúinn að snúa aftur á völlinn.nordic photos/getty images
Það fer fjöldi stórleikja fram í enska boltanum í kvöld en stærsti leikurinn er viðureign Man. City og Chelsea. Chelsea hefur verið á fínu flugi síðan Andre Villas-Boas var rekinn sem stjóri félagsins og Roberto Di Matteo tók við stjórnartaumunum. Að sama skapi hefur Man. City verið að gefa eftir og liðið hefur sérstaklega verið í vandræðum með að skora upp á síðkastið.

Það ætti að hjálpa City í kvöld að John Terry, fyrirliði Chelsea, getur ekki leikið vegna meiðsla. Hann meiddist í Meistaradeildarleiknum gegn Napoli og verður ekki leikfær fyrr en um helgina.

Mesta spennan er þó hvort Argentínumaðurinn Carlos Tevez komi við sögu í leiknum. Hann hefur ekki spilað fyrir aðallið City síðan í september á síðasta ári.

Þá neitaði hann að koma af bekknum í Meistaradeildarleik gegn Bayern og lét sig svo hverfa í þrjá mánuði.

„Það kemur vel til greina að velja Carlos í hópinn," sagði Roberto Mancini, stjóri City, en hann sagði að Tevez myndi aldrei aftur spila fyrir félagið eftir að hann neitað að koma inn á.

„Hann er að verða betri en ég efast um að hann geti spilað meira en 25-30 mínútur. Hann þarf að fá mínútur á vellinum en 90 mínútur er allt of mikið."

Man. City er fjórum stigum á eftir toppliði Man. Utd og myndi því minnka forskotið niður í eitt stig með sigri í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×